Erlent

Tólf létu lífið í skotárásinni í Virginia Beach: Vettvangi árásarinnar „best lýst sem stríðsátökum“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Tólf létu lífið í árásinni.
Tólf létu lífið í árásinni. Vísir/ap
Í gærkvöldi greindu fréttamiðlar vestan hafs frá því að ellefu manns hið minnsta hefðu látið lífið í skotárás í borginni Virginia Beach í Bandaríkjunum en tala látinna er nú kominn upp í tólf eftir að eitt fórnarlambanna lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Fjórir særðust í árásinni en þar af eru þrír í lífshættu.

Heimildir CNN herma að árásarmaðurinn hefði verið óánægður starfsmaður. Hann starfaði sem verkfræðingur hjá þjónustumiðstöð í borginni. Hann lést af sárum sínum í kjölfar skotárásar við lögreglu en endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.

James A. Cervera, lögreglustjórinn í Viginia Beach sagði að einn þeirra sem særðust í árásinni væri lögreglumaður en það sem varð honum til bjargar var skothelt vesti sem hann klæddist.

Cervera sagði að vettangi árásarinnar væri „best lýst sem stríðsátökum“. Hann sagði að líkin hefðu fundist á öllum þremur hæðum byggingarinnar en þá banaði árásarmaðurinn einnig manni sem sat í bílnum sínum fyrir utan bygginguna.

Árásarmaðurinn, sem hét DeWayne Craddock, hélt að vinnustaðnum sínum um 16.00 að staðartíma og hóf skothríðina.

Borgarstjórinn í Virginia Beach, Robert M. Dyer, sagði að þetta væri sorglegasti dagur í sögu borgarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×