Skoðun

Orkuskiptin

Eyþór Arnalds skrifar
Orkan okkar hefur breytt miklu. Rafljós kom í stað gas- og lýsisljóss. Heita vatnið kom í stað kolakyndingar. Fyrst kom hitaveita í Reykjavík fyrir 90 árum. Það var bylting. „Kolefnissporið“ var ansi áberandi enda lá þykkur reykjarmökkur yfir borginni. Tvennt vannst með hitaveitunni. Umhverfisbót og sparnaður gjaldeyris. Sambærilegt átak er mögulegt með orkuskiptum í samgöngum. Á hverju ári flytjum við inn gríðarlega mikið af eldsneyti á bifreiðar, bæði dísil og bensín. Kostnaðurinn er tugir milljarða á hverju ári. Flestir eru sammála um að ekkert land sé í betri færum til að fara í orkuskipti í samgöngum, en einmitt Ísland.

Við höfum stigið varfærin skref á síðustu fimm árum, en lengra þarf að ganga til að fara alla leið. Í Noregi hefur sala rafbíla tekið risastökk og voru 58% nýrra bíla hreinir rafbílar í mars. Þar hefur þó komið í ljós að uppbygging innviða hefur verið of hæg. Við þurfum að auðvelda þeim sem búa í fjölbýli að hlaða rafbíla sína. Reykjavíkurborg getur sem eigandi Orkuveitu Reykjavíkur farið í hraða uppbyggingu á innviðum fyrir rafbíla. Hingað til hefur verið farið í takmörkuð tilraunaverkefni sem lofa góðu.

Nú er rétti tíminn til að taka stóra skrefið líkt og forverar okkar í borgarstjórn gerðu þegar hitaveitan fór af stað. Með þessu vinnum við svo margt. Loftgæði batna. Losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Gjaldeyrir fyrir tugi milljarða sparast. Svo ekki sé minnst á bætta hljóðvist. Sjálfur hefur ég verið á rafmagnsbílum eingöngu síðustu fimm og hálft ár. Reynslan er ekki góð. Hún er frábær. Ef Jón Þorláksson og aðrir forgöngumenn hitaveitunnar í Reykjavík gátu gert þetta mikla átak fyrir um 90 árum eigum við tvímælalaust að geta auðveldað íbúum höfuðborgarinnar að nýta íslenska og hreina orku á bílana okkar. Strætó og atvinnutæki eru ekki undanskilin. Rafhjól og skutlur líka. Nýtum þetta tækifæri og förum alla leið.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×