Erlent

Varað við galla í vængjum Boeing 737

Kjartan Kjartansson skrifar
Vandræðagangur bandaríska flugvélaframleiðandans heldur áfram.
Vandræðagangur bandaríska flugvélaframleiðandans heldur áfram. AP/Kin Cheung
Bandarísk flugmálayfirvöld segja að galli sé í vængjum fleiri en þrjú hundruð Boeing 737-farþegaþotna á heimsvísu. Hætta sé að hlutar í vængjunum geti brugðist eða sprungur komið í þá vegna mistaka í framleiðslu þeirra.

Niðurstaða rannsóknar Flugmálastofnunar Bandaríkjanna (FAA) leiddi í ljós að raufungar í vængjum 133 Boeing 737 NG-véla og 179 Boeing Max-þotna væru gallaðir. Þeir standist ekki styrkleika- eða endingarpróf.

Stofnunin ætlar að skipa Boeing að fjarlægja raufungana og skipta þeim út í þeim flugvélum sem þá er að finna, að sögn fréttastofu CNBC-sjónvarpsstöðvarinnar. Raufungar er vængildi sem eru fest á frambrún vængja og eiga að auka lyftikraft þeirra. Þeir eru fyrst og fremst notaðir við flugtak og lendingu.

Ekki er talið að gallinn gæti grandað þotunum en hætta sé á að hann gæti valdið skemmdum á þeim á meðan á flugi stendur.

Boeing 7373 Max-þoturnar hafa þegar verið kyrrsettar frá því í mars vegna galla í hugbúnaði þeirra sem er talinn hafa valdið tveimur mannskæðum flugslysum í Indónesíu og Eþíópíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×