Íslenski boltinn

Björgvin dæmdur í eins leiks bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Stefánsson.
Björgvin Stefánsson. Fréttablaðið/Sigtryggur
KR-ingurinn Björgvin Stefánsson var í dag dæmdur í eins leiks bann af aganefnd Knattspyrnusambands Íslands.

Þetta bann tengist þó ekki ummælum Björgvins sem lýsanda í leik Hauka og Þrótta í Inkasso deild karla.

Björgvin var dæmdur í eins leiks bann fyrir tvö gul spjöld í Mjólkurbikar karla. Björgvin fékk gult spjald í sigurleikjunum á móti Dalvík/Reyni og Völsungi.

Björgvin tekur því bannið út í leik KR á móti Njarðvík í átta liða úrslitunum en sá leikur fer fram 27. júní á KR-vellinum.

Úrskurðurinn í máli Björgvins vegna rasíska ummæla verður aftur á móti kynntur í hádeginu á morgun en niðurstaða í því máli liggur fyrir samkvæmt heimildum Vísis.

„Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin Stefánsson í lýsingunni á Haukar TV en svarti maðurinn sem hann talaði um er Archie Nkumu, leikmaður Þróttar. Sindri Hjartarson benti fyrst á ummælin á Twitter.





Björgvin var fljótur að bregðast við með því að biðjast afsökunar og knattspyrnudeild Hauka sendi svo frá sér yfirlýsingu seinna um kvöldið.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma og menn veltu fyrir sér hvort Björgvin gæti verið á leiðinni í langt bann

Brot Björgvins gæti hugsanlega kostað hann fimm leikja bann enda væntanlega verið að skoða meint brot gegn þessari reglu hér fyrir neðan.

16.1. Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt, og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti 5 leiki og banni frá viðkomandi leikvelli. Jafnframt skal félag viðkomandi sæta sekt að lágmarki að upphæð kr. 100.000. Ef sá brotlegi er forsvarsmaður liðs skal sekt félags nema að lágmarki kr. 150.000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×