Erlent

Leggja til að Columbine-skólinn verði rifinn

Atli Ísleifsson skrifar
Eric Harris og Dylan Klebold drápu tólf nemendur og einn kennara í árásinni 20. apríl 1999 áður en þeir sviptu sig lífi
Eric Harris og Dylan Klebold drápu tólf nemendur og einn kennara í árásinni 20. apríl 1999 áður en þeir sviptu sig lífi Getty
Skólayfirvöld í Jefferson-sýslu í Colorado hafa lagt til að Columbine-skólinn í bænum Littleton, þar sem fjöldi fólks dó í skotárás tveggja nemenda fyrir tuttugu árum, verði rifinn og nýr skóli byggður í staðinn.

Þetta skuli gert til að koma í veg fyrir „sjúklega hrifningu“ margra á blóðbaðinu sem þar átti sér stað í aprílmánuði 1999.

Jason Glass, fulltrúi skólayfirvalda, segir í bréfi til foreldra barna við skólann að árásin hafi veitt mörgum „hryllilegan innblástur“. Þannig reyni hundruð manna, sem ekki tengjast skólanum, að komast inn í skólann á hverju ári og hafi fjöldinn aldrei verið meiri en á síðustu ellefu mánuðum.

Í bréfi sínu minnist Glass sérstaklega á hina átján ára Sol Pais, sem ferðaðist sérstaklega frá Flórida til Colorado í apríl og hafði í hótunum áður en hún svipti sig lífi. Vitað var að hún var heltekin af skotárásinni árið 1999.

Ný bygging reist nokkru vestar

Tillögur yfirvalda ganga út á að rífa núverandi skólabyggingu og byggja nýja nokkru vestar. Þó skuli halda nafni skólans, einkennislitum og lukkudýri.

Eric Harris og Dylan Klebold drápu tólf nemendur og einn kennara í árásinni 20. apríl 1999 áður en þeir sviptu sig lífi. Á þeim tíma var þetta mannskæðasta árásin sem gerð hafði verið í skóla í sögu Bandaríkjanna. Vitað er að í seinni tíð hefur árásin veitt öðrum innblástur til að framkvæma árásir í skóla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×