Innlent

Þyrluslys og fíkniefnabrot á Suðurlandi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast á vaktinni í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast á vaktinni í gærkvöldi og nótt. vísir/vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi hefur átt í nógu að snúast frá því í gærmorgun enda nóg um að vera í umdæminu. Bæjarhátíð Selfoss, Kótelettan, fer fram um helgina og því fullt af skemmtanatengdum handtökum þar.



Fimm einstaklingar gistu í fangageymslum í Selfossi í nótt og tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir ölvunarakstur. Tjaldsvæði á Selfossi og í nágrenni eru þéttsetin og var nokkuð um útköll vegna ástands einstaklinga eftir áfengis- og vímuefnaneyslu.



Eins og við má búast er umferð þung þar sem Hvítasunnuhelgi er mikil ferðahelgi og hvetur lögreglan fólk til að sýna tillitssemi í umferðinni og gefa sér góðan tíma í ferðalög á milli staða.



Lögreglan mun halda úti miklu eftirliti og hafa sett upp handahófskenndar eftirlitsstöðvar til að kanna ástand ökumanna. Bæði mun lögregla notast við merktar og ómerktar lögreglubifreiðar við eftirlitið.



Á hádegi í dag barst lögreglu tilkynning um að fis þyrlu hafi hlekkst á í lendingu nálægt Þingvöllum. Tveir aðilar voru um borð í fisinu en sakaði ekki. Rannsóknarnefnd flugslysa mun rannsaka málið ásamt lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×