Viðskipti innlent

Fullnaðarsigur Emmessíss í Toppísmálinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Emmessís breytti á sínum tíma vöru sinni Toppís í Happís eftir að lögbann var sett á notkun fyrirtækisins á vörumerkinu.
Emmessís breytti á sínum tíma vöru sinni Toppís í Happís eftir að lögbann var sett á notkun fyrirtækisins á vörumerkinu.
Emmessís má nota vörumerkið Toppís og þarf ekki að farga öllum vörum og auglýsingum sem bera vörumerkið. Þetta er niðurstaða Landsréttar sem staðfesti dóm úr héraði þess efnis. Kjörís stefndi Emmessís og gerði fyrrnefnda kröfu en hafði ekki erindi sem erfiði fyrir dómstólum.

Forsaga málsins er sú að Kjörís selur svokallaðan Lúxus toppís og skráði vörumerkið hjá Einkaleyfastofu árið 1996. Tuttugu árum síðar hóf Emmessís sölu á ís í boxi undir merkinu Toppís. Lagði Sýslumaðurinn í Reykjavík um tíma lögbann á þá framleiðslu að kröfu Kjöríss.

Í framhaldinu stefndi Kjörís Emmessís til staðfestingar á lögbanninu. Um leið að Emmessís fengi ekki lengur að nota vörumerkið á einn eða annan hátt. Emmessís lagði fram gagnstefnu og krafðist ógildingar á skráningu vörumerkisins hjá Einkaleyfastofu.

Í dómi Landsréttar var vísað til laga um vörumerki þar sem fram kemur að vörumerkið Toppís yrði að hafa verið notað sem vörumerki. Gögn málsins bentu ekki til þess að Kjörís hefði í reynd notað orðið toppís sem vörumerki með skýrum hætti til að aðgreina vörur sínar frá vörum annarra framleiðenda.

Féllst rétturinn á með Emmessís að Kjörís hefði ekki notað orðið toppís sem vörumerki eins og tilskilið væri í lögum til að það héldi skráningarhæfi sínu. Var dómurinn því staðfestur og skráning Kjörís á vörumerkinu Toppís hjá vörumerkjaskrá ógilt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×