Viðskipti innlent

Bankinn tók ekki þátt þrátt fyrir lægra gengi

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifa
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans
Landsbankinn, þriðji stærsti hluthafi Stoða, tók ekki þátt í nýafstaðinni hlutafjáraukningu fjárfestingafélagsins þrátt fyrir að hluthöfum hafi gefist kostur á því að skrá sig fyrir nýju hlutafé á gengi sem var um 25 prósentum lægra en áætlað bókfært virði félagsins.

Bankinn var sá eini af helstu hluthöfum Stoða, sem er eitt stærsta fjárfestingafélag landsins, sem ákvað að taka ekki þátt í forgangsréttarútboði félagsins en útboðinu lauk síðastliðinn fimmtudag. Bankinn átti 15 prósenta hlut í fjárfestingafélaginu fyrir hlutafjáraukninguna.

Samtals söfnuðust um 3,7 milljarðar króna í forgangsréttarútboðinu, samkvæmt heimildum Markaðarins, en hluthafar gátu greitt fyrir nýja hluti í félaginu með bæði reiðufé eða hlutabréfum. Helstu hluthafar Stoða, innlendir sem erlendir, tóku þátt í útboðinu að Landsbankanum undanskildum.

Eignarhaldsfélagið S121, sem lagði Stoðum til um 2,3 milljarða króna í nýtt hlutafé, er stærsti hluthafi fjárfestingafélagsins með tæpan 65 prósenta hlut og Arion banki, sem lagði félaginu til rúmlega 700 milljónir króna, sá næststærsti með liðlega 20 prósenta hlut.

Eigið fé Stoða var 18,3 milljarðar króna í lok mars og nemur eftir hlutafjáraukninguna, sem var ætlað að styrkja enn frekar fjárfestingargetu félagsins, um 22 milljörðum króna. Stoðir hafa á síðustu vikum fjárfest í Símanum og Arion banka fyrir samanlagt um 9 milljarða króna.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×