Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Breiðablik 0-1 | Vandræði Valsara halda áfram

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/vilhelm
Valsmenn tóku á móti Breiðablik í kvöld á Origo vellinum en leikurinn var hluti af 6.umferð Pepsi Max deild karla. Blikar náðu inn sigurmarki seint í síðari hálfleik en þeir voru töluvert sterkari aðilinn. Lokatölur 1-0, Blikum í vil.

 

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en á 10.mínútu kom Sigurður Egill Lárusson boltanum í netið fyrir Valsmenn en því miður var hann dæmdur rangstæður. Endursýningar hafa þó sýnt að líklega var það rangur dómur. Gífurlega svekkjandi fyrir heimamenn.

 

Blikar tóku síðan öll völd á vellinum og áttu mjög góðan kafla næstu 25-30 mínúturnar þar sem Þórir Guðjónsson fékk meðal annars tvö dauðafæri en í bæði skiptin var það Hannes Þór Halldórsson í marki Vals sem kom sínum mönnum til bjargar. 

 

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en í uppbótartíma kom Sigurður Egill boltanum aftur í markið en aftur var hann flaggaður rangstæður og líklega var það aftur rangur dómur! Gífurlega svekkjandi fyrir Valsmenn. Staðan í hálfleik 0-0.

 

Valsmenn vildu fá víti á 52.mínútu þegar Andri Adolphsson fór niður í teig Blika en Egill Arnar Sigurþórsson dómari leiksins dæmdi ekkert. Það var svo síðan loksins sem Breiðablik náði að skora þegar Andri Rafn Yeoman kom boltanum í netið á 77.mínútu. 

 

Þá gerði Orri Sigurður Ómarsson sig sekan um mistök í vörn Vals en hann náði ekki að hreinsa frá fyrirgjöf Blika sem endaði með skoti frá Brynjólfi Darra Willumssyni, Hannes varði vel frá honum en Andri Rafn Yeoman var fyrstur á frákastið og setti boltann örugglega í mark Vals. 1-0 fyrir Breiðablik.

 

Valsmenn reyndu hvað þeir gátu að jafna leikinn en náðu því ekki. Varamaðurinn Kristinn Freyr Sigurðsson endaði svo leikinn á því að fá beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Kolbein Þórðarson í liði Blika. Lokatölur 1-0 fyrir Breiðablik og Valsmenn því áfram í vondum málum í fallbaráttu eins og staðan er núna!

 

Af hverju vann Breiðablik?

 

Þeir voru einfaldlega töluvert betri aðilinn í kvöld. Þeir áttu fullt af hættulegum færum áður en þeir skoruðu markið og Valsmenn voru ekki að ógna marki Blika mikið. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Hjá heimamönnum var Hannes Þór Halldórsson frábær í markinu en hann hélt sínum mönnum á löngum köflum inn í þessum leik.

 

Hjá gestunum var Andri Rafn Yeoman öflugur sem og Kolbein Þórðarson. 

 

Hvað gekk illa?

 

Sóknarleikur Vals var ekki upp á marga fiska í kvöld en Kristinn Ingi sýndi lítið og Garðar Bergmann Gunnlaugsson kom inn fyrir hann og gerði ekki mikið meira í hans stað. Aðstoðardómari 2 gerði sig líklega sekan um að dæma tvö lögleg mörk af Val og það er alls ekki nógu gott.

 

Hvað gerist næst?

 

Valsmenn fara í erfiðan leik eftir viku þegar þeir mæta Stjörnunni í Garðabænum á meðan Blikar eiga bikarleik gegn nágrönnum sínum í HK næstkomandi fimmtudag.

 

Bjössi: Partýið er annars staðar en hérna í augnablikinu

Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals mætti í viðtal eftir leik en hann var svekktur eftir tap sinna manna í kvöld. Hann sagði sína menn ekki hafa verið nógu góðir.

 

„Við vorum bara ekki nógu góðir, svo einfalt er það. Þeir vildu þetta bara meira en við og náðu þessu marki en við reyndum skorum 2 mörk sem voru tekin af okkur sem voru lögleg og það er alveg ljóst á þessu Íslandsmóti að það skiptir máli að skora fyrsta markið í þessum leikjum.”

 

„Það skilur á milli í þessu. Ef þú kemst yfir þá getur verið erfitt að koma til baka. Við gerðum ekki nóg.”

 

Miðað við endursýningar voru þetta rangar dómar í báðum þessum mörkum sem Valur skoraði í fyrri hálfleik, Bjössi sagði að það væri því miður ekkert hægt að gera í því núna.

 

„Það er ekkert hægt að breyta því núna en auðvitað er það svekkjandi en það er bara eins og það er. Þetta er fúlt, sérstaklega að tapa og við þurfum að átta okkur á því að við erum ekki að spila nógu vel.”

 

Hann var klár á því að Valsmenn hefðu átt að fá víti þegar Andri Adolphsson fór niður í teig Blika.

 

„Það var víti, alveg klárt. En við fengum á okkur mark hérna sem við hefðum getað komið í veg fyrir. Dómararnir eru mismunandi, það er bara eins og það er en það er mjög stórt að það sé tekið af okkur 2 mörk. Við þurfum bara að hugsa um okkur sjálfa og gera betur.”

 

Hann var svekktur yfir markinu sem þeir fengu á sig og sagði að þeir verði að gera betur í varnarleiknum í svona stöðu.

 

„Ég þarf að skoða það aftur en auðvitað er maður svekktur yfir því að fá á sig svona mark, það segir sig sjálft og að tapa með því marki er leiðinlegt. Við vorum bara ekki nógu góðir í kvöld.”

 

Bjössi viðurkenndi að hann hefði áhyggjur af stöðu mála og að Valur væri bara í fallbaráttu eins og staðan er í dag.

 

„Við erum bara í fallbaráttu eins og staðan er núna. Það er bara eitthvað sem við þurfum að glíma við og díla við. Partýið er annars staðar en hérna í augnablikinu og við þurfum að bíta í skjaldarendur og gera betur. Vippa aðeins kassanum út og spila betur.”

 

Valur fær núna vikufrí fyrir næsta deildarleik en þeir mæta Stjörnunni næstkomandi sunnudag. Bjössi sagðist þó ekki þiggja vikufrí því hann vilji helst spila aftur á eftir.

 

„Ég væri til í að spila á eftir, næsta leik. Það er ömurlegt að bíða í viku eftir næsta leik en það er eins og það er. Við þurfum bara að nota þessa viku og gera þetta eins og menn. Það þýðir ekkert að væla yfir þessu, svona er bara staðan og við verðum að fara gera hlutina betur,” sagði Sigurbjörn að lokum.

 

Gústi Gylfa: Þetta var bara sanngjarnt í dag

Ágúst Þór Gylfason þjálfari Breiðabliks var sáttur eftir sigur sinna manna gegn Íslandsmeisturum Vals en hann sagði vinnuframlag sinna manna hafi gert útslagið í kvöld.

 

„Vinnuframlag leikmanna gerði útslagið í kvöld. Við komum hingað með mikið sjálfstraust og þrýstum vel á Valsarana og fengum 2-3 mjög góð færi og vorum í rauninni óheppnir að ná ekki að skora í fyrri hálfleik.”

 

„Ætluðum svo að halda uppteknum hætti í síðari hálfleik og gerðum það, héldum góðri pressu og unnum flest návígi og klárum þetta með góðu marki. Geggjuð 3 stig á mjög erfiðum útivelli. Valsarar eru auðvitað í öngum sínum og þetta var bara sanngjarnt í dag.”

 

Gústi sagðist ekki hafa haft neinar miklar áhyggjur af því hversu illa hans mönnum gekk í dauðafærunum, þá sérstaklega í fyrri hálfleik.

 

„Nei í rauninni ekki. Mér fannst einhvern veginn alltaf eins og þetta myndi enda á marki hjá okkur. Valsararnir sköpuðu sér ekki mikið en mér fannst við bara flottir í kvöld og gríðarlega mikilvæg 3 stig.”

 

Hann sagði að þeir væru ekkert að pæla í Valsmönnum þrátt fyrir að þeir séu að skilja þá 9 stigum á eftir sér og í fallbaráttu.

 

„Við erum ekkert að hugsa um þá. Við erum bara að elta Skagamenn sem eru á toppnum.”

 

Blikar eiga erfiðan bikarleik framundan en þeir mæta þá HK í nágrannaslag.

 

„Við þurfum að spila betur en við gerðum í deildinni gegn þeim. Við þurfum að halda uppteknum hætti frá því í dag og taka það með okkur í leikinn gegn HK og þá hef ég engar áhyggjur af þeim leik,” sagði Gústi Gylfa í lokin.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira