Erlent

Ekki bara röðin sem valdi auknum fjölda dauðsfalla á Everest

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Röðin á tindi Everest-fjalls þann 22. maí síðastliðinn.
Röðin á tindi Everest-fjalls þann 22. maí síðastliðinn. Mynd/Nirmal Purja
Ferðamálayfirvöld í Nepal hafa þvertekið fyrir að rekja megi aukinn fjölda dauðsfalla á Everest-fjallinu, hæsta fjalli heims, eingöngu til aukningu í fjölda þeirra sem fá leyfi til að klífa fjallið.

Alls létust tíu í síðustu viku á Everest-fjalli. Eru dauðsföllin á fjallinu í ár nú þegar orðin fleiri en á öllu síðasta ári.

Yfirvöld í Nepal hafa verið gagnrýnd fyrir hversu margir hafi fengið leyfi til að klífa fjallið. Alls hafa verið gefin út rúmlega 380 leyfi fyrir fjallgöngumenn sem hyggjast ná toppnum, þar af þrjú fyrir Íslendinga sem náðu toppnum í síðustu viku. Hvert leyfi kostar um 1,3 milljónir króna.

Fjöldi vongóðra fjallgöngumanna hefur því aldrei verið fleiri en myndir af biðröð á tindi Everest-fjalls hafa vakið mikla athygli. Við biðina myndast afar hættuleg skilyrði, þar sem fjallgöngumennirnir standa nær hreyfingarlausir í nístingskulda í tæplega 9.000 metra hæð.

Yfirmaður Ferðamálastofu Nepals segir hins vegar að ekki sé eingöngu hægt að kenna fjölda leyfa um það hversu margir hafi farist á fjallinu í ár, fleiri þættir spili þar inn í, ekki síst slæm veðurskilyrði á fjallinu. Þá segir hann aðeins átta hafa farist, ekki tíu, samkvæmt gögnum yfirvalda í Nepal.

Meðal þeirra sem látist hefur er Bretinn Robin Haynes Fisher. Talið er að hinn 44 ára gamli fjallgöngumaður hafi hnigið niður og látist aðeins 150 metrum frá tindi fjallsins, á niðurleið eftir að hafa komist á topp Everest-fjalls.


Tengdar fréttir

Metfjöldi reynir nú að sigra Everest

Mikill fjöldi fólks hefst nú við í hlíðum Everest-fjalls þar sem það bíður færis að komast á topp þessa hæsta fjalls heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×