Viðskipti innlent

Veltan helmingaðist á fimm árum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ein af verslunum Bílanaust.
Ein af verslunum Bílanaust. Vísir/Vilhelm
Velta varahlutaverslana Bílanausts helmingaðist á þeim fimm árum sem liðu frá því að félagið var keypt út úr olíufélaginu N1 og þangað til það var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun þessa árs. Taprekstur einkenndi starfsemina á tímabilinu og nam uppsafnað tap félagsins tæplega 600 milljónum króna.

Rekstrarsaga Bílanausts nær aftur til ársins 1962 en félagið sameinaðist N1 árið 2007. Árið 2013 stofnaði N1 dótturfélag undir merkjum Bílanausts og var félagið selt sama ár til eignarhaldsfélagsins Efstasunds. Stærsti hluthafinn var Coldrock Investments limited sem er í eigu systkin­anna Gunn­ars Þórs, Guðnýj­ar Eddu, Hall­dórs Páls og Eggerts Árna Gísla­barna, en þau eru meðal ann­ars eig­end­ur að inn­flutn­ings­fyr­ir­tæk­inu Mata og mat­væla­fyr­ir­tækj­un­um Síld og fiski og Mat­fugli. Bræðurnir Lárus Blöndal Sigurðsson og Dagur Sigurðsson áttu einnig töluverðan hlut.

Samkvæmt heimildum Markaðarins nam kaupverðið um 700 milljónum króna. Þá var Bílanaust stærsta varahlutafyrirtæki landsins með árstekjur upp á rúma 2,2 milljarða króna. Það var tvöfalt meiri velta en hjá Stillingu, helsta keppinautnum.

Samningarnir í tengslum við kaupin á Bílanaust út úr N1 drógu hins vegar dilk á eftir sér. Afskrifa þurfti stóran hluta af vörubirgðum sem fylgdu með kaupunum þar sem hann samanstóð af varahlutum í gamla bíla sem stóðust ekki tímans tönn. Vörubirgðir minnkuðu úr 600 milljónum árið 2013 í 226 milljónir árið 2018. Bílanaust var auk þess samningsbundið N1 um vöruhýsingu og hafði því lítinn sveigjanleika til að afhenda vörur. Það gerði félaginu erfitt fyrir í samkeppni við önnur varahlutafyrirtæki á borð við Stillingu og AB varahluti. Þá hafði aukin áhersla N1 á smásölu á kostnað verkstæðaþjónustu á bensínstöðvum fyrirtækisins á síðustu árum veruleg áhrif á viðskipti olíufélagsins við Bílanaust og þar af leiðandi veltuna.

Samkvæmt óbirtum ársreikningi Bílanausts fyrir árið 2018 námu tekjur félagsins 1.150 milljónum króna sem er um helmingi minni upphæð en árið 2013. Tap rekstrarársins nam 279 milljónum króna og eigið fé félagsins var í árslok orðið neikvætt um 528 milljónir. Í byrjun janúar 2019 var Bílanaust tekið til gjaldþrotaskipta eftir að samningsumleitanir við Arion banka, viðskiptabanka félagsins, báru ekki árangur. Arion banki hafði lagt félaginu til hálfan milljarð króna í tengslum við eigendaskiptin árið 2013. Eftirstöðvar af lánunum nema um 450 milljónum króna.

Skömmu eftir gjaldþrotið náði þrotabú Bílanausts samkomulagi við Motormax, um sölu á tilteknum eignum úr búinu. Áformað er að reka verslanir Bílanausts í Reykjavík, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og á Selfossi áfram og stefnt er að opnun verslananna á Akureyri og Egilsstöðum síðar. Samkvæmt heimildum Markaðarins nemur kaupverðið 270 milljónum króna en Motormax er að fullu í eigu UK fjárfestinga, móðurfélags Toyota á Íslandi. Eignirnar sem Motormax keypti úr búinu eru fasteignir Bílanausts í Hafnarfirði og Selfossi fyrir 170 milljónir, allir rekstrarfjármunir, vörumerkið og lénið, ásamt vörubirgðum. Þessar eignir höfðu verið veðsettar Arion banka til tryggingar á lánunum en einnig voru viðskiptakröfur að bókfærðu virði 62 milljónum króna veðsettar bankanum.

Í samrunaskrá vegna kaupa Motormax á eignum og rekstrarfjármunum Bílanausts, sem Markaðurinn hefur undir höndum, kemur fram að stór vörumerki sem voru mikilvæg í rekstri Bílanausts hafi farið til AB varahluta, eins af stærstu keppinautunum. Nefnd eru vörumerki á borð við Glasurit lakkvörur, Britax barnastóla, Triscan bílavarahluti og Mirka málningarvörur. Forsvarsmenn Motormax telja ljóst að talsverður hluti af veltu Bílanausts muni flytjast til AB varahluta. Samkvæmt heimildum Markaðarins vildu AB varahlutir kaupa þrotabúið en skiptastjóri taldi félagið ekki hafa bolmagn í það.

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Motormax á eignum úr þrotabúinu eftir að hafa rannsakað markaðinn. Er það mat eftirlitsins að markaðshlutdeild Motormax, Bílanausts og TK bíla, sem er einnig innan Toyota-samstæðunnar, verði áþekk hlutdeildum AB varahluta og Stillingar, það er, á bilinu 20-25 prósent. Hins vegar hefði hlutdeildin verið á bilinu 30-35 prósent ef Motormax hefði haldið öllum umboðssamningum Bílanausts.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×