Fótbolti

Lögreglan í Bakú stöðvaði stuðningsmenn í treyjum Mkhitaryan | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mkhitaryan hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili.
Mkhitaryan hefur leikið sinn síðasta leik á þessu tímabili. vísir/getty
Stuðningsmenn Arsenal sem voru í treyjum merktum Henrikh Mkhitaryan voru stöðvaðir af lögreglunni á götum Bakú í Aserbaídsjan þar sem úrslitaleikur Evrópudeildarinnar, milli Arsenal og Chelsea, fer fram.

Mkhitaryan fór ekki með Arsenal-liðinu til Aserbaídsjan vegna ótta um öryggi sitt. Mkhitaryan er frá Armeníu sem hefur átt í áralöngum deilum við Aserbaídsjan vegna Nagorno-Karabakh héraðsins.

Knattspyrnusamband Evrópu og knattspyrnusamband Aserbaídsjan fullyrtu að öryggi Mkhitaryans yrði tryggt. 

Óvíst er hversu mikið var til í þeim fullyrðingum því stuðningsmenn Arsenal voru stöðvaðir af lögreglunni í Bakú fyrir það eitt að vera í treyjum með nafni Mkhitaryans aftan á.

Á myndbandinu hér fyrir neðan sjást lögreglumenn stöðva för stuðningsmannanna sem fengu þó á endanum að halda leið sinni áfram.

Leikmenn Arsenal ætluðu að hita upp í treyjum merktum Mkhitaryan fyrir úrslitaleikinn í kvöld. Reglur UEFA banna það hins vegar.

Leikur Arsenal og Chelsea hefst klukkan 19:00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×