Innlent

Knattspyrnuþjálfari sem bjargar lífi barna og snýr niður innbrotsþjófa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Júlíus Ármann Júlíusson kemur fólki reglulega til aðstoðar.
Júlíus Ármann Júlíusson kemur fólki reglulega til aðstoðar. Vísir
Júlíus Ármann Júlíusson, knattspyrnuþjálfari hjá Aftureldingu, var svo sannarlega réttur maður á réttum stað um liðna helgi. Júlíus var á Hamborgarafabrikkunni á Akureyri þegar stóð í dreng í næsta bás. Móðirin ætlaði að rölta út með drenginn en Júlíus Ármann steig inn í.

„Ég tek dreng­inn úr hönd­un­um á henni og næ að fara með hægri hönd­ina und­ir bring­una, ein­hvern veg­inn beygi mig niður með hann og slæ létt á milli herðablaðanna,“ seg­ir Júlíus í samtali við Morgunblaðið í dag.

Viðbrögðin hafi verið ósjálfráð. Honum hafi þótt skrýtið að enginn hafi gripið inn í fyrr. Móðirin hafi eðlilega verið í miklu áfalli en mjög þakklát þegar drengurinn hafði jafnað sig.

Júlíus vill lítið gera úr atvikinu en skemmst er að minnast þegar hann kom einstæðri móður með ellefu daga gamalt barn til bjargar í október 2016.

Sneri þjófinn niður á nærbuxunum

Þá var maður að reyna að brjótast inn í hús í hverfi Júlíusar, lá á glugganum hjá konunni sem bjó á hæðinni fyrir neðan Júlíus Ármann.

„Hann hleypur á móti mér og veitist að mér þannig að ég þurfti bara að snúa hann niður og halda honum. Hann streittist á móti, hótaði mér og reyndi að slá til mín og annað. Ég sneri hann bara niður og hélt honum.“

Í framhaldinu hringdi kona Júlíusar á lögregluna sem kannaðist við innbrotsþjófinn. Svokallaður góðkunningi.

„Þetta var svolítið magnað. Að standa þarna berfættur á nærbuxunum og snúa einhvern mann niður sem var að reyna að komast inn í hús,“ sagði Júlíus í viðtali við Vísi.

Þá minnti Júlíus á mikilvægi þess að læsa hurðum og bílum á kvöldin. Lærdómurinn frá Akureyri sé að fara á skyndihjálparnámskeið og viðhalda kunnáttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×