Erlent

Þóttist vera þýskur erfingi og sveik út tugi milljóna

Sylvía Hall skrifar
Sorokin í réttarsal.
Sorokin í réttarsal. Vísir/Getty

Hin 28 ára gamla Anna Sorokin var á fimmtudag dæmd til fjögurra til tólf ára fangelsisvistar fyrir fjársvik og þjófnað yfir margra ára tímabil en Sorokin, sem gekk undir nafninu Anna Delvey, hafði þóst vera fjársterkur þýskur erfingi. Buzzfeed greinir frá.  



Sorokin sveik yfir þrjátíu milljónir út úr vinum og fyrirtækjum yfir nokkurra ára tímabil en hún hafði flutt til New York í þeirri von um að opna menningarklúbb. Sextán ára gömul flutti hún frá Rússlandi til Þýskalands í skóla en hætti stuttu síðar og fluttist til Parísar. Þaðan lá leiðin til New York þar sem svikin hófust.



Í viðtali við New York Times sagðist Sorokin ekki sjá eftir neinu. Þrátt fyrir að hafa hagnast á svindlinu hafi það aldrei snúist um peninga heldur völd.



„Ég var valdaþyrst,“ sagði Sorokin og bætir við að hún hafi alltaf ætlað að greiða peningana til baka.



Hún segir að ef hún fengi annað tækifæri myndi hún gera þetta allt aftur.



„Ég væri að ljúga að þér og öllum öðrum og fyrst og fremst sjálfri mér ef ég segðist sjá eftir einhverju.“

Sorokin, þá þekkt sem Anna Delvey, á viðburði árið 2014.Vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×