Viðskipti innlent

Félag atvinnurekenda sakar kjötframleiðendur um tvískinnung

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Hópur um örugg matvæli varar við innflutningi á kjöti.
Hópur um örugg matvæli varar við innflutningi á kjöti. Nordicphotos/Getty
Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir málflutning „Hóps um örugg matvæli“ en hópurinn hefur í auglýsingum varað við innflutningi á kjöti til landsins. Í tilkynningu frá FA er bent á þá staðreynd að nokkrir af aðstandendum auglýsingaherferðarinnar séu einnig stórtækir kjötinnflytjendur.

Er þar um að ræða Sláturfélag Suðurlands, Reykjagarð, Síld og fisk, Matfugl og Kjarnafæði. Þessi fyrirtæki fengu úthlutað um þriðjungi af tollfrjálsum innflutningskvóta fyrir kjötvörur sem úthlutað var á fyrri hluta ársins, samkvæmt tollasamningi við ESB. Var þessi tollkvóti upp á tæp 470 tonn af kjötvörum.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að samkvæmt málflutningi þessara fyrirtækja sé innflutt kjöt stórhættulegt og beri í sér bakteríur sem ógna lýðheilsu á Íslandi. „Í verki eru þau hins vegar stórtækir kjötinnflytjendur og sýna þannig að þau hafa engar áhyggjur af því að innflutningur ógni heilsu fólks,“ segir Ólafur.

Hann segir að þessi fyrirtæki verði að fara að gera upp hug sinn. „Tvískinnungur af þessu tagi er alls ekki trúverðugur.“

Frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem heimilar innflutning á fersku kjöti er nú til meðferðar hjá atvinnuveganefnd Alþingis. Markmið frumvarpsins er að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum.

Bændasamtök Íslands sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem farið er fram á þriggja ára aðlögunartíma vegna breytinganna. Það sé nauðsynlegt þar sem nú stefni í að málið verði afgreitt. Það sé óraunhæft að boðuð aðgerðaáætlun ráðherra sem efla eigi matvælaöryggi hafi einhver áhrif fyrir gildistöku laganna í haust.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×