Innlent

Sveiflaði öxi í átt að lögreglumönnum og hjó ítrekað í lögreglubíl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla hefur í mörg horn að líta.
Lögregla hefur í mörg horn að líta. Vísir/Vilhelm
Karlmaður hefur verið dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni, brot á vopnalögum, tilraunar til sérlegra hættulegrar líkamsárásar og eignaspjöll. Maðurinn ógnaði lögreglumönnum með öxi og skemmdi lögreglubíl þeirra.

Maðurinn var yfirbugaður af lögreglumönnum fyrir utan heimili hans í Reykjanesbæ þann 15. september á síðasta ári. Áður en lögregla náði að yfirbuga hann hafði hann sveiflað öxi ítrekað í átt til þeirra, bæði inn á heimili hans sem og á bílastæðinu fyrir utan.

Þá hjó hann ítrekað með öxinni í lögreglubílinn sem lögreglumennirnir komu á í útkallið. Skemmdi hann rúður bílsins, lista og vélarhlíf.

Maðurinn játaði sök og mat Héraðsdómur Reykjaness það honum til málsbóta í málinu auk þess sem að hann var samvinnuþýður við rannsókn málsins. Var maðurinn sem fyrr segir dæmdur í níu mánaða fangelsi en þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára.

Þá samþykkti maðurinn að greiða embætti ríkislögreglustjóra rúma milljón vegna skemmdanna sem hann vann á lögreglubílnum. Auk þess var öxi mannsins gerð upptæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×