Íslenski boltinn

„Vantaði að finna okkar einkenni“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Nýliðar ÍA hefur farið frábærlega af stað í Pepsi Max deild karla í fótbolta og lögðu Íslandsmeistara Vals í síðustu umferð á Hlíðarenda.

Eftir þrjár umferðir er ÍA með sjö stig á toppi deildarinnar ásamt Breiðabliki og FH.

„Þeir eru klárir í þetta og rúmlega það, líkamlega leggja þeir allt í sölurnar í hvern einasta leik og trúin er svo virkilega til staðar,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Þeir vinna saman og eru tilbúnir til þess að fórna sér fyrir hvorn annan.“

ÍA varð síðast Íslandsmeistari 2001, frá því 2008 hefur liðið fallið þrisvar úr efstu deild en er eitt sigursælasta félag íslenska fótboltans.

„Það vantaði að finna okkar einkenni, okkar styrkleika. Okkur fannst mikilvægt að finna það aftur og við ætlum að byggja á þessum gildum áfram.“

„Þessi vinnusemi og vilji til þess að standa saman. Þetta er lítið samfélag uppi á Skaga en það er mikil samheldni þarna.“

ÍA fær FH í heimsókn á Akranes í fjórðu umferðinni annað kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×