Þyngri róður í aprílmánuði Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar 15. maí 2019 07:15 Ferðaþjónustan finnur fyrir áhrifunum af falli WOW air. Fréttablaðið/Anton Brink Ferðaþjónustan finnur fyrir áhrifunum af falli WOW air. Samdráttar gætti víða í apríl og framkvæmdastjóri Kynnisferða segir hann hafa numið tugum prósenta. Stjórnendur í ferðaþjónustu eru opnari en áður fyrir því að hefja samstarf sín á milli eða sameina fyrirtæki til þess að lifa af í breyttu rekstrarumhverfi. Það er tími tækifæra fyrir Eldey sem hefur það markmið að búa til stærri og sterkari einingar í greininni. Ólíklegt er að veitingastaðir geti gripið til sömu úrræða enda sjá þeir takmarkaðan ávinning af samlegð. Farþegum á Keflavíkurflugvelli fækkaði um rúmlega fjórðung í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en um er að ræða fyrsta heila mánuðinn eftir fall íslenska flugfélagsins. Þar af fækkaði komu- og brottfararfarþegum um 10,4 prósent og skiptifarþegum um rúman helming. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir í samtali við Markaðinn að rútustarfsemin hafi orðið fyrir miklu höggi í kjölfar gjaldþrots WOW air. „Við erum að sjá töluverða fækkun farþega og minnkandi tekjur. Tekjusamdrátturinn í apríl var 34 prósent milli ára. Þetta hefur haft heilmikil áhrif,“ segir Björn. Spurður hvort þetta eigi við um allan rútugeirann segir Björn að hann telji svo vera. „Maður hefur heyrt í öðrum í greininni að apríl hafi verið þungur og að hann hafi í rauninni ekki verið svona slæmur í átta ár. Það þarf að fara aftur til 2011 til að finna jafn slakan aprílmánuð,“ segir Björn. Kynnisferðir sögðu upp 60 manns í lok mars þegar ljóst var að íslenska flugfélagið legði niður starfsemi. Síðan þá hefur fyrirtækið verið að draga saman seglin, og hagræða eins og hægt er að sögn Björns. „Bókunarstaðan fyrir sumarið var orðin ágæt en við höfum séð bókunarhraðann minnka á síðustu vikum þannig að fyrirséð er að samdráttur verði töluverður í sumar,“ segir Björn. Hann segir óheppilegt að Boeing Max málið hafi komið upp á sama tíma og WOW air varð gjaldþrota enda hafi það aftrað Icelandair frá því að fylla í skarðið. Á endanum muni þó flugframboð taka við sér. „Ég held að þetta verði skammtímahögg fyrir ferðaþjónustuna og það verður sársaukafullt á meðan á því stendur. Fyrirtæki munu þurfa að fækka fólki og sum munu lenda í rekstrarerfiðleikum. Það munar um eitt stórt flugfélag,“ segir Björn og bætir við að Samtök ferðaþjónustunnar hafi átt fundi með ráðamönnum til að óska eftir aukinni þátttöku hins opinbera í markaðsstarfi íslenskrar ferðaþjónustu og sérstökum aðgerðum til að bæta fyrir brottfall WOW air. „Núna, rúmlega sex vikum eftir fall WOW hafa stjórnvöld enn ekki brugðist við þrátt fyrir að fyrirséð er að gjaldeyristekjur muni dragast saman um hátt í 100 milljarða króna á þessu ári,“ segir Björn. Fjárfestingarfélagið Eldey, sem er í stýringu hjá Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka, sérhæfir sig í fjárfestingum í ferðaþjónustu. Eldey er virkur fjárfestir, á fulltrúa í stjórnum þeirra fyrirtækja sem félagið fjárfestir í og hefur því góða yfirsýn yfir stöðuna. Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, segir að fyrirtæki í ferðaþjónustu leiti nú leiða til að auka sveigjanleika þannig að unnt verði að grípa til ráðstafana verði samdrátturinn dýpri en spár gera ráð fyrir. „Það lítur út fyrir að apríl og maí komi verr út en á síðustu árum. Bókunarstaðan fyrir sumarið er sem fyrr góð og hjá þeim félögum sem tengjast Eldey erum við ekki farin að sjá stórar afbókanir eða verulega minnkun á milli ára sem virðist vera vísir um að sumarið muni halda sér,“ segir Hrönn. „Við erum hins vegar að sjá fyrirtæki ráða færri starfsmenn í sumar en upphaflega stóð til. Ferðaþjónustan er vinnuaflsfrek atvinnugrein og hagræðingaraðgerðir taka mið af því,“ segir Hrönn og bætir við að mörg fyrirtæki skoði nú hvernig hægt sé að samnýta mannauð, bókhald, sölu og markaðsstarf. „Það er verið að skoða leiðir til að finna samstarfsfleti og það er í sjálfu sér hið besta mál vegna þess að ferðaþjónustan, sérstaklega afþreyingargeirinn, samanstendur af litlum fyrirtækjum og í besta falli meðalstórum fyrirtækjum sem hafa litla burði í sölu- og markaðssetningu. Það þarf burðug fyrirtæki til að standa undir þeim kröfum sem eru gerðar í markaðssetningu og sölustarfi í dag.“ Hrönn segir að fjölgun flugleiða og fjölbreytileiki í framboði á flugi til Íslands á undanförnum árum hafi gert ferðaþjónustuna að heilsársgrein. WOW air hafi spilað stórt hlutverk og nú þegar flugfélagið er fallið, að viðbættum vandræðunum í kringum Beoing-vélar, séu líkur á því að þessi árangur sem náðist í að draga úr árstíðasveiflu gangi eitthvað til baka. „Erlendu flugfélögin sem fljúga hingað yfir sumarið munu draga úr framboðinu í haust og ferðaþjónustan mun koma til með að finna fyrir því. Ég held að í þessu árferði verði árstíðasveiflan meiri en áður og veikari grundvöllur fyrir heilsársstarfsemi mun koma verst niður á smærri fyrirtækjum og ég hef einnig áhyggjur af landsbyggðinni í þessu sambandi.“ Eldey stóð að sameiningu Íslenskra fjallaleiðsögumanna og Arcanum ferðaþjónustu árið 2018 og skoðar nú frekari sameiningar eða samvinnu hjá þeim fyrirtækjum sem félagið hefur fjárfest í. „Fyrir Eldey er þetta tími tækifæranna. Það hefur verið markmið Eldeyjar að fjárfesta í félögum, þjappa þeim saman og búa til stærri og sterkari einingar, og nú er mjög góður jarðvegur til þess. Stjórnendur eru tilbúnir til þess að ræða sameiningar og sjá þörfina fyrir þær. Í góðærinu sáu menn ekki tilganginn í því að steypa tveimur félögum saman sem bæði gengu vel. Það var alveg eins gott að reka þau hvort í sínu lagi,“ segir Hrönn. Auk þess hafi verðhugmyndir og væntingar tekið breytingum í takt við gang mála í vetur. „Það má segja að menn séu komnir niður á jörðina. Það eru mjög miklar þreifingar og við getum sagt að það sé kaupendamarkaður eins og staðan er í dag.“Hefur Eldey þurft að breyta áætlunum sínum á síðustu mánuðum í ljósi stöðunnar í ferðaþjónustunni? „Já, við höfum þurft að gera það og það hefur verið gert með því að rýna vel í vöruframboðið og taka ákvarðanir um að ferðir, sem eru ekki að skila tilætluðum árangri, fari ofan í skúffu. Síðan er verið að skoða hvernig við getum aukið sjálfvirkni í undirbúningi ferðanna. Það er lykilatriði að auka sjálfvirkni enda er launakostnaðurinn mjög hár í þessari grein og þá mikilvægt að ná jafnvægi í launahlutfallinu. Það gefur augaleið að þegar launahlutfallið er komið vel yfir 50 prósen, þá er arðsemin ekki mikil,“ segir Hrönn.Háar þóknanir eru byrði Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, segir að fyrstu mánuðir ársins hafi gengið betur en áætlað var. „Við höfum fjárfest í sölukerfinu okkar fyrir mörg hundruð milljónir króna á síðustu fjórum árum og erum að sjá það skila árangri. Það er söluaukning á fyrstu mánuðum ársins. Hins vegar höfum við séð breytingar á vöruflokkum, einn er upp og annar niður, sem gefur til kynna að hegðunarmynstur ferðamanna sé að breytast. Sumar ódýrari vörur hafa orðið fyrir höggi en dýrari vörur ganga vel sem kemur okkur á óvart því að miðað við umræðuna hefðum við búist við að dýrari ferðir ættu erfitt uppdráttar,“ segir Jón Þór. Spurður um bókunarstöðuna í sumar segir hann að hún sé betri en á sama tíma í fyrra. „Ég segi það hins vegar með ákveðinni varkárni vegna þess að það eru miklar breytingar í umhverfinu og það verður áhugavert að sjá hvað gerist í sumar.“ Þrátt fyrir samdrátt í greininni í kjölfar gjaldþrots WOW air segist Jón Þór bjartsýnn á horfurnar til lengri tíma litið. Ekki megi gleyma því að fargjöld séu ekki eina ástæðan fyrir komu ferðamanna til landsins. „Við megum ekki gleyma því að þetta snýst ekki bara um verð á flugsæti, þetta snýst líka um eftirspurn eftir að koma og sjá náttúruna og upplifa Ísland. Ég veit ekki hvað gerist næstu mánuðina en til lengri tíma er ég sannfærður um að ferðaþjónustan mun styrkjast. Við þurfum að komast í gegnum þessa dýfu eftir WOW air en ferðaþjónustan mun vaxa til lengri tíma.“ Jón Þór segir að háar þóknanir sem stórar bókunarsíður heimta séu ekki til þess fallnar að létta róðurinn. „Helstu keppninautar okkar eru stórar bókunarsíður. Það er samkeppni um að ná sölunni til sín. Þessi mikla fjárfesting í sölukerfinu sem við réðumst í er, eðli málsins samkvæmt, ekki á færi smærri fyrirtækja, ekki nema þau sameinist um sölukerfi. Við höfum kannski verið eina fyrirtækið sem hefur náð að standa uppi í hárinu á bókunarsíðunum, og teljum við það vera helstu ástæðuna fyrir góðri bókunarstöðu.“ Hrönn hjá Eldey tekur í sama streng. „Við höfum reynt að ná sem mestri sölu beint til okkar vegna þess að þóknanir til milliliða hafa verið yfirgengilegar. Við erum með dæmi um það að einstaka milliliðir hafa í krafti m.a. stærðar sinnar verið að taka 30-35 prósent af sölunni sem þóknun. Þetta er eitthvað sem við stefnum að því að lágmarka í öllum okkar félögum. Það má þó ekki skilja það þannig að milliliðir séu óþarfir því þeir eru vissulega ein leið í sölu- og markaðsstarfi en þóknanir þurfa að ná jafnvægi og vera stilltar í hóf þannig að báðir aðilar geti lifað af.“Lítið að hafa upp úr samlegð Veitingarekstur hefur verið erfiður frá sumrinu 2017. Kostnaður hefur farið vaxandi en offramboð á veitingastöðum hefur leitt til harðrar samkeppni. Hrefna Sætran, eigandi Fiskmarkaðarins og Grillmarkaðarins, segir að gestum hafi fækkað á milli ára í maí og apríl. „Í fyrra var líka lægð eftir páska en í ár hefur lægðin verið aðeins dýpri. Við erum samt að búast við ágætu sumri. Sumrin hafa verið góð í gegnum tíðina þó að veturinn hafi verið harður,“ segir hún. Aðspurð segir Hrefna að samdráttur í ferðaþjónustunni muni reynast yngri veitingastöðum erfiður. „Ég held að við munum sjá lokanir á veitingastöðum á næstu mánuðum. Eldri og rótgrónari staðir standa betur og hafa meiri stöðugleika en það verður erfitt fyrir yngri staði að fóta sig í þessu umhverfi.“ Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar og stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar, segist einnig hafa fundið fyrir fækkun í apríl en hún hafi verið væg. Flestir viðskiptavinir Jómfrúarinnar eru Íslendingar en hlutfall erlendra ferðamanna er mest 30 prósent yfir sumarið. „Ég hugsa að gjaldþrotum muni fjölga. Ef maður horfir bara á veitingastaði í miðborginni þá er offramboð og menn eru mikið að keppa á verðum. Það er erfiðara að verðleggja þjónustu og gæði í umhverfinu í dag,“ segir Jakob. „Það er alltaf verið að tala um þroskaskeið ferðaþjónustunnar, að hún sé á ákveðnum stað og að fram undan sé samþjöppun í greininni. Ég held að samlegðaráhrif séu sýnd veiði en ekki gefin í veitingarekstri og það á sérstaklega við um miðbæinn. Þú nærð ekki fram neinni samlegð ef birgjar þurfa að afhenda vörur á mörgum stöðum. Allir veitingastaðir þurfa sinn yfirkokk, yfirþjón og mannaðar vaktir og þar fram eftir götunum, þó svo menn reyni að spila með árstíðabundnum sveiflum eins og kostur er. Auk þess er veitingarekstur í eðli sínu mannaflafrek grein eins og ferðaþjónustan í heild raunar. Það er helst í yfirbyggingu, það er fjármálastjórn og bókhaldi, sem hægt er að finna samlegðaráhrif,“ segir Jakob. Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri og eigandi CenterHotels, segir óvissuna enn mikla. „Við erum að finna fyrir þessu núna í apríl og maí, og ég held að ódýrari gisting hafi orðið fyrir meira höggi. Það heyrir maður úr bransanum. Svo er spurning hvernig sumarið verður. Bókunarstaðan er ágæt en það er ekki útséð um það enn,“ segir Kristófer. Þá segir Björn hjá Kynnisferðum að rekstur bílaleigunnar Enterprise, sem er innan samstæðunnar, hafi verið í takt við áætlanir. „Bókunarstaðan fyrir sumarið er góð og hefur haldið áfram að vaxa. Það hefur verið minni fækkun en við áætluðum í hópi þeirra ferðamanna sem vilja keyra sjálfir. Ég kann ekki skýringu á því í fljótu bragði,“ segir Björn. „Reksturinn hjá bílaleigum var þungur 2017 og 2018 og þær hafa verið að fækka í flotanum, þannig að það hlýtur að hafa eitthvað með það að gera. Við erum að fækka bílum um 20 prósent frá því í fyrra og ég veit að stóru bílaleigurnar hafa einnig verið að fækka bílum.“Gjá í framboði flugsæta Í nýrri skýrslu Íslandsbanka sem ber heitið Íslensk ferðaþjónusta kemur fram að framboð flugsæta um Keflavíkurflugvöll dragist saman um 28 prósent í ljósi gjaldþrots WOW air. Icelandair auki þó framboð sitt um 14 prósent og önnur erlend flugfélög um fimm prósent. Greinendum bankans reiknast til að meðalútgjöld ferðamanna sem komu til landsins með WOW air hafi verið níu prósentum lægri en meðalútgjöld ferðamanna hér á landi almennt. Einnig bendir tölfræðin til þess að hlutfallslega færri þeirra hafi verið með tekjur yfir meðallagi og að þeir hafi dvalið hér á landi um fimm prósentum skemur en ferðamenn almennt. Þá kemur einnig fram að hlutfallslega færri farþegar WOW air nýttu sér hótelgistingu og hlutfallslega fleiri þeirra nýttu sér aðra ódýrari valkosti sem fela í sér minni þjónustu á borð við Airbnb. Þessi tölfræði bendir til þess að farþegar WOW air hafi skilið eftir sig minni verðmæti hér á landi en farþegar annarra flugfélaga.Ísland áfram ódýrast frá Bandaríkjunum Bandaríkjamenn greiða að jafnaði minna fyrir flug til Íslands en annarra áfangastaða í Evrópu þrátt fyrir að WOW air sé hætt starfsemi. Þetta eru niðurstöður könnunar sem leitarvélin Kayak framkvæmdi fyrir vefsíðuna Thrillist. Niðurstöðurnar voru birtar í byrjun maí, rúmum mánuði eftir fall WOW air. Skoðað var hvaða evrópski áfangastaður væri ódýrastur frá 64 flugvöllum í Bandaríkjunum og var Ísland ódýrasti kosturinn í 36 tilfellum. Icelandair og þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna fljúga til Keflavíkurflugvallar í sumar en aðeins er flogið beint frá 15 flugvöllum í Bandaríkjunum. WOW air flutti hlutfallslega fleiri ferðamenn frá Norður-Ameríku og Mið- og Suður-Evrópu hingað til lands en önnur flugfélög og er því talið að gjaldþrot félagsins hafi, að öðru óbreyttu, mestu áhrifin á fjölda ferðamanna hingað til lands frá þessum markaðssvæðum. Birtist í Fréttablaðinu Ferðamennska á Íslandi Mest lesið Lætur af störfum hjá Stöð 2 eftir tuttugu ára feril Viðskipti innlent Meta birtir óumbeðnar gervigreindarmyndir af notendum Instagram Viðskipti erlent Hótel Selfoss verður Marriott hótel Viðskipti innlent JBT Marel tekið til viðskipta í Kauphöllinni Viðskipti innlent Engin hópuppsögn í desember Viðskipti innlent Mælir ekki með „TikTok-sparnaðarleiðunum“ Neytendur Olíufélögin hafi hætt við að elta Costco Neytendur Mannauðsmál: „Enn of mikil tilhneiging til að taka ekki á málum“ Atvinnulíf „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ Atvinnulíf Aldrei jafn margir ferðast með Icelandair Viðskipti innlent Fleiri fréttir JBT Marel tekið til viðskipta í Kauphöllinni Hótel Selfoss verður Marriott hótel Lætur af störfum hjá Stöð 2 eftir tuttugu ára feril Engin hópuppsögn í desember Aldrei jafn margir ferðast með Icelandair Slitu kolefnisbindingarfyrirtækinu Running Tide Eigendum fjölgar hjá LOGOS Þrír og hálfur milljarður króna fyrir Perluna Blöskrar 14 prósent verðhækkun tryggingarfélags Ummæli stjórnarmanns Eflingar um sníkjudýr „til skammar“ Vigdís frá Play til Nettó Gjafabréf og alls konar flatbökudótarí vinsælar jólagjafir í ár Innkalla nagstangir sem hundar veikjast af Nýskráning fólksbíla dróst saman um rúm fjörutíu prósent Kaupsamningar nærri helmingi fleiri en í fyrra Verkalýðshreyfingin sé stærsta ógnin við starfsöryggi á veitingastöðum Slippurinn allur að sumri loknu „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Sjá meira
Ferðaþjónustan finnur fyrir áhrifunum af falli WOW air. Samdráttar gætti víða í apríl og framkvæmdastjóri Kynnisferða segir hann hafa numið tugum prósenta. Stjórnendur í ferðaþjónustu eru opnari en áður fyrir því að hefja samstarf sín á milli eða sameina fyrirtæki til þess að lifa af í breyttu rekstrarumhverfi. Það er tími tækifæra fyrir Eldey sem hefur það markmið að búa til stærri og sterkari einingar í greininni. Ólíklegt er að veitingastaðir geti gripið til sömu úrræða enda sjá þeir takmarkaðan ávinning af samlegð. Farþegum á Keflavíkurflugvelli fækkaði um rúmlega fjórðung í apríl miðað við sama mánuð í fyrra en um er að ræða fyrsta heila mánuðinn eftir fall íslenska flugfélagsins. Þar af fækkaði komu- og brottfararfarþegum um 10,4 prósent og skiptifarþegum um rúman helming. Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir í samtali við Markaðinn að rútustarfsemin hafi orðið fyrir miklu höggi í kjölfar gjaldþrots WOW air. „Við erum að sjá töluverða fækkun farþega og minnkandi tekjur. Tekjusamdrátturinn í apríl var 34 prósent milli ára. Þetta hefur haft heilmikil áhrif,“ segir Björn. Spurður hvort þetta eigi við um allan rútugeirann segir Björn að hann telji svo vera. „Maður hefur heyrt í öðrum í greininni að apríl hafi verið þungur og að hann hafi í rauninni ekki verið svona slæmur í átta ár. Það þarf að fara aftur til 2011 til að finna jafn slakan aprílmánuð,“ segir Björn. Kynnisferðir sögðu upp 60 manns í lok mars þegar ljóst var að íslenska flugfélagið legði niður starfsemi. Síðan þá hefur fyrirtækið verið að draga saman seglin, og hagræða eins og hægt er að sögn Björns. „Bókunarstaðan fyrir sumarið var orðin ágæt en við höfum séð bókunarhraðann minnka á síðustu vikum þannig að fyrirséð er að samdráttur verði töluverður í sumar,“ segir Björn. Hann segir óheppilegt að Boeing Max málið hafi komið upp á sama tíma og WOW air varð gjaldþrota enda hafi það aftrað Icelandair frá því að fylla í skarðið. Á endanum muni þó flugframboð taka við sér. „Ég held að þetta verði skammtímahögg fyrir ferðaþjónustuna og það verður sársaukafullt á meðan á því stendur. Fyrirtæki munu þurfa að fækka fólki og sum munu lenda í rekstrarerfiðleikum. Það munar um eitt stórt flugfélag,“ segir Björn og bætir við að Samtök ferðaþjónustunnar hafi átt fundi með ráðamönnum til að óska eftir aukinni þátttöku hins opinbera í markaðsstarfi íslenskrar ferðaþjónustu og sérstökum aðgerðum til að bæta fyrir brottfall WOW air. „Núna, rúmlega sex vikum eftir fall WOW hafa stjórnvöld enn ekki brugðist við þrátt fyrir að fyrirséð er að gjaldeyristekjur muni dragast saman um hátt í 100 milljarða króna á þessu ári,“ segir Björn. Fjárfestingarfélagið Eldey, sem er í stýringu hjá Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka, sérhæfir sig í fjárfestingum í ferðaþjónustu. Eldey er virkur fjárfestir, á fulltrúa í stjórnum þeirra fyrirtækja sem félagið fjárfestir í og hefur því góða yfirsýn yfir stöðuna. Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, segir að fyrirtæki í ferðaþjónustu leiti nú leiða til að auka sveigjanleika þannig að unnt verði að grípa til ráðstafana verði samdrátturinn dýpri en spár gera ráð fyrir. „Það lítur út fyrir að apríl og maí komi verr út en á síðustu árum. Bókunarstaðan fyrir sumarið er sem fyrr góð og hjá þeim félögum sem tengjast Eldey erum við ekki farin að sjá stórar afbókanir eða verulega minnkun á milli ára sem virðist vera vísir um að sumarið muni halda sér,“ segir Hrönn. „Við erum hins vegar að sjá fyrirtæki ráða færri starfsmenn í sumar en upphaflega stóð til. Ferðaþjónustan er vinnuaflsfrek atvinnugrein og hagræðingaraðgerðir taka mið af því,“ segir Hrönn og bætir við að mörg fyrirtæki skoði nú hvernig hægt sé að samnýta mannauð, bókhald, sölu og markaðsstarf. „Það er verið að skoða leiðir til að finna samstarfsfleti og það er í sjálfu sér hið besta mál vegna þess að ferðaþjónustan, sérstaklega afþreyingargeirinn, samanstendur af litlum fyrirtækjum og í besta falli meðalstórum fyrirtækjum sem hafa litla burði í sölu- og markaðssetningu. Það þarf burðug fyrirtæki til að standa undir þeim kröfum sem eru gerðar í markaðssetningu og sölustarfi í dag.“ Hrönn segir að fjölgun flugleiða og fjölbreytileiki í framboði á flugi til Íslands á undanförnum árum hafi gert ferðaþjónustuna að heilsársgrein. WOW air hafi spilað stórt hlutverk og nú þegar flugfélagið er fallið, að viðbættum vandræðunum í kringum Beoing-vélar, séu líkur á því að þessi árangur sem náðist í að draga úr árstíðasveiflu gangi eitthvað til baka. „Erlendu flugfélögin sem fljúga hingað yfir sumarið munu draga úr framboðinu í haust og ferðaþjónustan mun koma til með að finna fyrir því. Ég held að í þessu árferði verði árstíðasveiflan meiri en áður og veikari grundvöllur fyrir heilsársstarfsemi mun koma verst niður á smærri fyrirtækjum og ég hef einnig áhyggjur af landsbyggðinni í þessu sambandi.“ Eldey stóð að sameiningu Íslenskra fjallaleiðsögumanna og Arcanum ferðaþjónustu árið 2018 og skoðar nú frekari sameiningar eða samvinnu hjá þeim fyrirtækjum sem félagið hefur fjárfest í. „Fyrir Eldey er þetta tími tækifæranna. Það hefur verið markmið Eldeyjar að fjárfesta í félögum, þjappa þeim saman og búa til stærri og sterkari einingar, og nú er mjög góður jarðvegur til þess. Stjórnendur eru tilbúnir til þess að ræða sameiningar og sjá þörfina fyrir þær. Í góðærinu sáu menn ekki tilganginn í því að steypa tveimur félögum saman sem bæði gengu vel. Það var alveg eins gott að reka þau hvort í sínu lagi,“ segir Hrönn. Auk þess hafi verðhugmyndir og væntingar tekið breytingum í takt við gang mála í vetur. „Það má segja að menn séu komnir niður á jörðina. Það eru mjög miklar þreifingar og við getum sagt að það sé kaupendamarkaður eins og staðan er í dag.“Hefur Eldey þurft að breyta áætlunum sínum á síðustu mánuðum í ljósi stöðunnar í ferðaþjónustunni? „Já, við höfum þurft að gera það og það hefur verið gert með því að rýna vel í vöruframboðið og taka ákvarðanir um að ferðir, sem eru ekki að skila tilætluðum árangri, fari ofan í skúffu. Síðan er verið að skoða hvernig við getum aukið sjálfvirkni í undirbúningi ferðanna. Það er lykilatriði að auka sjálfvirkni enda er launakostnaðurinn mjög hár í þessari grein og þá mikilvægt að ná jafnvægi í launahlutfallinu. Það gefur augaleið að þegar launahlutfallið er komið vel yfir 50 prósen, þá er arðsemin ekki mikil,“ segir Hrönn.Háar þóknanir eru byrði Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, segir að fyrstu mánuðir ársins hafi gengið betur en áætlað var. „Við höfum fjárfest í sölukerfinu okkar fyrir mörg hundruð milljónir króna á síðustu fjórum árum og erum að sjá það skila árangri. Það er söluaukning á fyrstu mánuðum ársins. Hins vegar höfum við séð breytingar á vöruflokkum, einn er upp og annar niður, sem gefur til kynna að hegðunarmynstur ferðamanna sé að breytast. Sumar ódýrari vörur hafa orðið fyrir höggi en dýrari vörur ganga vel sem kemur okkur á óvart því að miðað við umræðuna hefðum við búist við að dýrari ferðir ættu erfitt uppdráttar,“ segir Jón Þór. Spurður um bókunarstöðuna í sumar segir hann að hún sé betri en á sama tíma í fyrra. „Ég segi það hins vegar með ákveðinni varkárni vegna þess að það eru miklar breytingar í umhverfinu og það verður áhugavert að sjá hvað gerist í sumar.“ Þrátt fyrir samdrátt í greininni í kjölfar gjaldþrots WOW air segist Jón Þór bjartsýnn á horfurnar til lengri tíma litið. Ekki megi gleyma því að fargjöld séu ekki eina ástæðan fyrir komu ferðamanna til landsins. „Við megum ekki gleyma því að þetta snýst ekki bara um verð á flugsæti, þetta snýst líka um eftirspurn eftir að koma og sjá náttúruna og upplifa Ísland. Ég veit ekki hvað gerist næstu mánuðina en til lengri tíma er ég sannfærður um að ferðaþjónustan mun styrkjast. Við þurfum að komast í gegnum þessa dýfu eftir WOW air en ferðaþjónustan mun vaxa til lengri tíma.“ Jón Þór segir að háar þóknanir sem stórar bókunarsíður heimta séu ekki til þess fallnar að létta róðurinn. „Helstu keppninautar okkar eru stórar bókunarsíður. Það er samkeppni um að ná sölunni til sín. Þessi mikla fjárfesting í sölukerfinu sem við réðumst í er, eðli málsins samkvæmt, ekki á færi smærri fyrirtækja, ekki nema þau sameinist um sölukerfi. Við höfum kannski verið eina fyrirtækið sem hefur náð að standa uppi í hárinu á bókunarsíðunum, og teljum við það vera helstu ástæðuna fyrir góðri bókunarstöðu.“ Hrönn hjá Eldey tekur í sama streng. „Við höfum reynt að ná sem mestri sölu beint til okkar vegna þess að þóknanir til milliliða hafa verið yfirgengilegar. Við erum með dæmi um það að einstaka milliliðir hafa í krafti m.a. stærðar sinnar verið að taka 30-35 prósent af sölunni sem þóknun. Þetta er eitthvað sem við stefnum að því að lágmarka í öllum okkar félögum. Það má þó ekki skilja það þannig að milliliðir séu óþarfir því þeir eru vissulega ein leið í sölu- og markaðsstarfi en þóknanir þurfa að ná jafnvægi og vera stilltar í hóf þannig að báðir aðilar geti lifað af.“Lítið að hafa upp úr samlegð Veitingarekstur hefur verið erfiður frá sumrinu 2017. Kostnaður hefur farið vaxandi en offramboð á veitingastöðum hefur leitt til harðrar samkeppni. Hrefna Sætran, eigandi Fiskmarkaðarins og Grillmarkaðarins, segir að gestum hafi fækkað á milli ára í maí og apríl. „Í fyrra var líka lægð eftir páska en í ár hefur lægðin verið aðeins dýpri. Við erum samt að búast við ágætu sumri. Sumrin hafa verið góð í gegnum tíðina þó að veturinn hafi verið harður,“ segir hún. Aðspurð segir Hrefna að samdráttur í ferðaþjónustunni muni reynast yngri veitingastöðum erfiður. „Ég held að við munum sjá lokanir á veitingastöðum á næstu mánuðum. Eldri og rótgrónari staðir standa betur og hafa meiri stöðugleika en það verður erfitt fyrir yngri staði að fóta sig í þessu umhverfi.“ Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar og stjórnarmaður í Samtökum ferðaþjónustunnar, segist einnig hafa fundið fyrir fækkun í apríl en hún hafi verið væg. Flestir viðskiptavinir Jómfrúarinnar eru Íslendingar en hlutfall erlendra ferðamanna er mest 30 prósent yfir sumarið. „Ég hugsa að gjaldþrotum muni fjölga. Ef maður horfir bara á veitingastaði í miðborginni þá er offramboð og menn eru mikið að keppa á verðum. Það er erfiðara að verðleggja þjónustu og gæði í umhverfinu í dag,“ segir Jakob. „Það er alltaf verið að tala um þroskaskeið ferðaþjónustunnar, að hún sé á ákveðnum stað og að fram undan sé samþjöppun í greininni. Ég held að samlegðaráhrif séu sýnd veiði en ekki gefin í veitingarekstri og það á sérstaklega við um miðbæinn. Þú nærð ekki fram neinni samlegð ef birgjar þurfa að afhenda vörur á mörgum stöðum. Allir veitingastaðir þurfa sinn yfirkokk, yfirþjón og mannaðar vaktir og þar fram eftir götunum, þó svo menn reyni að spila með árstíðabundnum sveiflum eins og kostur er. Auk þess er veitingarekstur í eðli sínu mannaflafrek grein eins og ferðaþjónustan í heild raunar. Það er helst í yfirbyggingu, það er fjármálastjórn og bókhaldi, sem hægt er að finna samlegðaráhrif,“ segir Jakob. Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri og eigandi CenterHotels, segir óvissuna enn mikla. „Við erum að finna fyrir þessu núna í apríl og maí, og ég held að ódýrari gisting hafi orðið fyrir meira höggi. Það heyrir maður úr bransanum. Svo er spurning hvernig sumarið verður. Bókunarstaðan er ágæt en það er ekki útséð um það enn,“ segir Kristófer. Þá segir Björn hjá Kynnisferðum að rekstur bílaleigunnar Enterprise, sem er innan samstæðunnar, hafi verið í takt við áætlanir. „Bókunarstaðan fyrir sumarið er góð og hefur haldið áfram að vaxa. Það hefur verið minni fækkun en við áætluðum í hópi þeirra ferðamanna sem vilja keyra sjálfir. Ég kann ekki skýringu á því í fljótu bragði,“ segir Björn. „Reksturinn hjá bílaleigum var þungur 2017 og 2018 og þær hafa verið að fækka í flotanum, þannig að það hlýtur að hafa eitthvað með það að gera. Við erum að fækka bílum um 20 prósent frá því í fyrra og ég veit að stóru bílaleigurnar hafa einnig verið að fækka bílum.“Gjá í framboði flugsæta Í nýrri skýrslu Íslandsbanka sem ber heitið Íslensk ferðaþjónusta kemur fram að framboð flugsæta um Keflavíkurflugvöll dragist saman um 28 prósent í ljósi gjaldþrots WOW air. Icelandair auki þó framboð sitt um 14 prósent og önnur erlend flugfélög um fimm prósent. Greinendum bankans reiknast til að meðalútgjöld ferðamanna sem komu til landsins með WOW air hafi verið níu prósentum lægri en meðalútgjöld ferðamanna hér á landi almennt. Einnig bendir tölfræðin til þess að hlutfallslega færri þeirra hafi verið með tekjur yfir meðallagi og að þeir hafi dvalið hér á landi um fimm prósentum skemur en ferðamenn almennt. Þá kemur einnig fram að hlutfallslega færri farþegar WOW air nýttu sér hótelgistingu og hlutfallslega fleiri þeirra nýttu sér aðra ódýrari valkosti sem fela í sér minni þjónustu á borð við Airbnb. Þessi tölfræði bendir til þess að farþegar WOW air hafi skilið eftir sig minni verðmæti hér á landi en farþegar annarra flugfélaga.Ísland áfram ódýrast frá Bandaríkjunum Bandaríkjamenn greiða að jafnaði minna fyrir flug til Íslands en annarra áfangastaða í Evrópu þrátt fyrir að WOW air sé hætt starfsemi. Þetta eru niðurstöður könnunar sem leitarvélin Kayak framkvæmdi fyrir vefsíðuna Thrillist. Niðurstöðurnar voru birtar í byrjun maí, rúmum mánuði eftir fall WOW air. Skoðað var hvaða evrópski áfangastaður væri ódýrastur frá 64 flugvöllum í Bandaríkjunum og var Ísland ódýrasti kosturinn í 36 tilfellum. Icelandair og þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna fljúga til Keflavíkurflugvallar í sumar en aðeins er flogið beint frá 15 flugvöllum í Bandaríkjunum. WOW air flutti hlutfallslega fleiri ferðamenn frá Norður-Ameríku og Mið- og Suður-Evrópu hingað til lands en önnur flugfélög og er því talið að gjaldþrot félagsins hafi, að öðru óbreyttu, mestu áhrifin á fjölda ferðamanna hingað til lands frá þessum markaðssvæðum.
Birtist í Fréttablaðinu Ferðamennska á Íslandi Mest lesið Lætur af störfum hjá Stöð 2 eftir tuttugu ára feril Viðskipti innlent Meta birtir óumbeðnar gervigreindarmyndir af notendum Instagram Viðskipti erlent Hótel Selfoss verður Marriott hótel Viðskipti innlent JBT Marel tekið til viðskipta í Kauphöllinni Viðskipti innlent Engin hópuppsögn í desember Viðskipti innlent Mælir ekki með „TikTok-sparnaðarleiðunum“ Neytendur Olíufélögin hafi hætt við að elta Costco Neytendur Mannauðsmál: „Enn of mikil tilhneiging til að taka ekki á málum“ Atvinnulíf „Þá hugsuðu menn: Fínt, fáum konurnar í þessi störf“ Atvinnulíf Aldrei jafn margir ferðast með Icelandair Viðskipti innlent Fleiri fréttir JBT Marel tekið til viðskipta í Kauphöllinni Hótel Selfoss verður Marriott hótel Lætur af störfum hjá Stöð 2 eftir tuttugu ára feril Engin hópuppsögn í desember Aldrei jafn margir ferðast með Icelandair Slitu kolefnisbindingarfyrirtækinu Running Tide Eigendum fjölgar hjá LOGOS Þrír og hálfur milljarður króna fyrir Perluna Blöskrar 14 prósent verðhækkun tryggingarfélags Ummæli stjórnarmanns Eflingar um sníkjudýr „til skammar“ Vigdís frá Play til Nettó Gjafabréf og alls konar flatbökudótarí vinsælar jólagjafir í ár Innkalla nagstangir sem hundar veikjast af Nýskráning fólksbíla dróst saman um rúm fjörutíu prósent Kaupsamningar nærri helmingi fleiri en í fyrra Verkalýðshreyfingin sé stærsta ógnin við starfsöryggi á veitingastöðum Slippurinn allur að sumri loknu „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Sjá meira