Skoðun

Alltaf segja nei nema það sé JÁ!

Kolbeinn Marteinsson skrifar
Derek Sivers er maður að mínu skapi en hann seldi fyrirtæki sitt fyrir tugi milljónir dollara og gaf hagnaðinn til mannúðarmála. Hann skrifaði einnig grein sem hefur haft mikil áhrif á mig og ég hef reynt að lifa eftir, þ.e. þegar ég man eftir því. Boðskapur Sivers er eftirfarandi: Ef þér líður eins og þú eigir aldrei neinn lausan tíma vegna skuldbindinga, sem yfirleitt taka miklu meiri tíma en þú áætlar, og að þú sért alltof oft upptekinn, þá skaltu einfaldlega segja nei við sem flestu ef svarið er ekki „JÁ!“ (Hell Yeah).

Þegar við erum beðin um að skuldbinda okkur og gefa af verðmætum tíma okkar en við finnum ekki tafarlaust fyrir brennandi ástríðu og tilhlökkun þá eigum við að segja „nei“. Það er fyrst þegar við erum búin að segja nei nógu oft að við fáum allt í einu tíma til að einhenda okkur í að gera hluti sem bara er hægt að svara með „JÁ!“. Þannig verður líf okkar miklu innihaldsríkara og við förum betur með þau takmörkuðu verðmæti sem tími okkar er.

Ég hef reynt að lifa eftir þessu mottói en viðurkenni að það gleymist reglulega og ég man það þá alltof seint. Mér tókst þó um daginn að lifa af nokkra daga þar sem ég sagði „nei“ við nánast öllu. Á húsfundi: „Kolbeinn vilt þú vera gjaldkeri í húsfélaginu?“ Nei. „En þá þarftu að vera ritari?“ Nei. Facebook-skilaboð: „Ertu ekki til í að koma í undirbúningsnefnd fyrir endurfundi úr grunnskóla?“ Nei. Og svona gekk þetta með enn fleiri neitunum. Og allt í einu átti ég góðan tíma aflögu til að gera eitthvað merkilegt!

Þá átti ég samtal við Fréttablaðið út af vinnunni. „Kolbeinn, ertu til í að skrifa Bakþanka í blaðið?“ JÁ!




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×