Innlent

Bæjarstarfsmenn fá gjafabréf fyrir aðhald

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Starfsmenn Grindavíkurbæjar eru verðlaunaðir með gjafabréfi vegna góðrar afkomu bæjarins og aðhalds sem sýnt var í fjármálum.
Starfsmenn Grindavíkurbæjar eru verðlaunaðir með gjafabréfi vegna góðrar afkomu bæjarins og aðhalds sem sýnt var í fjármálum. Fréttablaðið/Ernir
Stjórnsýsla „Við vorum einróma um það í bæjarráði að umbuna starfsmönnum fyrir að fara vel með fé og standa sig vel. Það er nauðsynlegt að gera það alveg eins og þegar illa gengur og verið er að skammast,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkurbæjar.

Þar sem afkoma bæjarins var góð í fyrra og forstöðumenn stofnana bæjarins gerðu almennt vel í því að halda fjárhagsáætlun fyrir árið samþykkti bæjarráð á fundi sínum í vikunni að leysa 240 starfsmenn bæjarins út með gjafabréfi að fjárhæð 10 þúsund krónur. Stjórnendur bæjarins sjá kostnaðinn, 2,4 milljónir, fyrst og fremst sem táknrænan og framtakið muni einungis hafa jákvæð áhrif í för með sér.



Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
Hjálmar, sem er á öðru kjörtímabili sínu í bæjarpólitíkinni, segir þetta vera í fyrsta skipti í hans tíð sem þetta er gert og hann kannist ekki við að þetta sé gert annars staðar.

„Við erum að vona að þetta hvetji fólk til dáða að halda slíku áfram. Þetta er frekar táknrænt, þetta er ekki það stór upphæð, en er viðurkenning á góðu starfi.“

Undir þetta tekur Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, sem telur þetta fallega hugsað og vel útfært hjá bæjaryfirvöldum.

„Þau í bæjarráði vildu meta það við starfsmenn hversu vel tókst til með að standast fjárhagsáætlun bæjarins og það er mikið í húfi fyrir bæinn og alla að vel sé að því staðið. Þetta er hógvær þakklætisvottur í formi vöruúttektar sem bæjaryfirvöld eru að sýna sínum starfsmönnum,“ segir Fannar og bætir við: „Þetta hefur sáralítil áhrif á fjárhag bæjarins því þetta er innan við einn þúsundasti af útgjöldum hans. Þetta er því táknræn aðgerð auk þess sem gjöfin er í formi úttektar hjá fyrirtækjum hérna í Grindavík þannig að þetta stuðlar líka að verslun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×