Erlent

Eist­neskur ráð­herra segir af sér eftir einn dag í starfi

Atli Ísleifsson skrifar
Marti Kuusik.
Marti Kuusik. Facebook-síða Marti Kuusik
Ráðherra viðskipta- og upplýsingatæknimála í Eistlandi hefur sagt af sér, degi eftir að ný ríkisstjórn tók við í landinu. Marti Kuusik segir af sér eftir að eistneska lögreglan greindi frá því að hann væri til rannsóknar, en fjölmiðlar þar í landi segja það vera vegna heimilisofbeldis.

Kuusik hefur sjálfur hafnað þeim ásökunum sem fram hafa komið og segir málið vera árás af hendi fjölmiðla.

Marti Kuusik er í ráðherraliði hægriöfgaflokksins Ekre sem tók í fyrsta sinn sæti í ríkisstjórn landsins eftir þingkosningarnar í mars. Hann skilaði inn afsögn sinni til forsætisráðherrans Jüri Ratas í gær.

Ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar Eistlands sóru embættiseið á mánudaginn, en forseti landsins, Kersti Kaljulaid, ákvað að ganga úr salnum þegar röðin var komin að Kuusik.

Miðflokkurinn, sem Ratas stýrir, myndaði nýja stjórn með íhaldsflokknum Isamaa og Ekre eftir kosningarnar, en saman fengu þeir 56 þingsæti af 101.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×