Erlent

Skemmtiferðaskip í sóttkví vegna mislingasmits

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skemmtiferðaskip. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Skemmtiferðaskip. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Bandarískt skemmtiferðaskip var sett í sóttkví á eyríkinu Sankti Lúsíu í Karíbahafi í gær eftir að tilkynnt var um mislingatilfelli um borð. Frá þessu greindi Merlene Fredericks James, landlæknir á Sankti Lúsíu, í tilkynningu sem hún birti á myndbandaveitunni YouTube í gær.

James sagði að aðrir möguleikar hafi ekki verið á borðinu eftir að tvær tilkynningar bárust um smitið þar sem mislingar eru bráðsmitandi. „Ein sýkt manneskja getur auðveldlega smitað aðra með því að hnerra, hósta eða skilja eftir svita einhvers staðar. Þannig að hættan á frekara smiti olli því að okkur þótti skynsamlegast að ákveða að leyfa engum að fara frá borði eins og stendur,“ sagði læknirinn.

Bandaríski fréttamiðillinn NBC News hafði eftir landhelgisgæslu á Sankti Lúsíu að skipið væri starfrækt af og í eigu Vísindakirkjunnar. Skipið var sagt heita Freewinds og á að vera með um 300 farþega innanborðs. Þetta rímar við það sem sjá mátti á vefsíðunni Marine­Traffic.com í gærkvöldi. Vísindakirkjan hafði hvorki sent frá sér yfirlýsingu um málið né tjáð sig um það með öðrum hætti þegar Fréttablaðið fór í prentun.

Að sögn James staðfesti skipslæknirinn að sjúklingurinn hefði ekki yfirgefið skipið og því ekki smitað neinn á eyjunni. Aukinheldur sagði James að mislingasjúklingurinn væri ekki í lífshættu vegna sjúkdómsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×