Erlent

Minnst sjö skotnir í skóla í Colorado

Samúel Karl Ólason skrifar
Gífurlegur viðbúnaður var á vettvangi.
Gífurlegur viðbúnaður var á vettvangi. AP/David Zalubowski
Minnst sjö eru særðir eftir að tveir aðilar hleyptu af skotum í skóla í úthverfi Denver fyrr í kvöld. Árásarmennirnir eru báðir í haldi lögreglu sem mun hafa brugðist mjög fljótt við eftir að skotum var fyrst hleypt af. Holly Nicholson-Kluth, aðstoðarfógeti Douglassýslu, segir fjölmörgum skotum hafa verið hleypt af og skothríðin hafi enn staðið yfir þegar lögregluþjóna bar að garði.

Talið er að báðir árásarmennirnir séu nemendur í skólanum. Þá liggur ekki fyrir hve alvarleg meiðsli þeirra sem særðust eru en sá yngsti er talinn vera fimmtán ára gamall. Í fyrstu var talið að árásarmennirnir hefðu verið þrír, samkvæmt CNN, en lögreglan þykist nú viss um að svo sé ekki.



Um 1.850 nemendur eru í skólanum.

AP fréttaveitan vitnar í héraðsmiðilin KUSA sem ræddi við vitni sem býr nærri skólanum. Hann sagði fjölda nemenda hafa hlaupið fram hjá húsi hans og þar af hafi einn verið skotinn í bakið.



CNN bendir á að skólinn sem um ræðir sé í um tíu kílómetra fjarlægð frá Columbine skólanum þar sem tveir nemendur myrtu tólf samnemendur sína og einn kennara árið 1999. Í apríl var skólum í Douglassýslu lokað eftir að leit stóð yfir að konu sem var heltekin af fjöldamorðinu í Columbine.



Sú hafði hótað árásum áður en hún ferðaðist frá Flórída til Colorado. Hún fannst þó á endanum og hafði svipt sig lífi.

Þá er vika síðan tveir voru myrtir og fjórir særðir í skóla í Norður-Karlólínu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×