Erlent

Fundu rúmlega þúsund byssur í glæsihýsi í Los Angeles

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar skrá byssurnar þúsund.
Lögregluþjónar skrá byssurnar þúsund. Vísir/AP
Karlmaður á sextugsaldri var handtekinn eftir að rúmlega þúsund skotvopn fundust í glæsihýsi í Los Angeles í morgun. Það tók þrjátíu lögregluþjóna minnst tólf tíma að finna allar byssurnar og fjarlægja þær. Einhverjir viðmælendur fjölmiðla segja það hafa tekið fimmtán tíma.

Um er að ræða skotvopn af öllum gerðum eins og haglabyssur, riffla, hálfsjálfvirka riffla og skammbyssur. Samkvæmt LA Times fannst einnig .50 kalibera vélbyssa í húsinu en vopnin fundust á víð og dreif um húsið og í innkeyrslu þess.

Lögreglan segir hluta skotvopnanna vera sjálfvirk að fullu, sem er brot á lögum Bandaríkjanna.

Sá sem var handtekinn heitir Girard Saenz og lögreglan grunar hann um að hafa staðið í ólöglegri vopnasölu. Hafa ber í huga að það er ekki endilega ólöglegt að eiga svo mörg skotvopn í Kaliforníu, þó einhver þeirra vopna sem fundust í húsinu séu ólögleg.

Til marks um það segir lögreglan að þetta sé „einn stærsti“ vopnafundurinn í borginni.

Saenz er skráður vopnasali en hann hefur þó ekki leyfi til að selja byssur með þessum hætti né allar tegundir þeirra skotvopna sem hann virðist hafa verið að selja.

Honum var sleppt úr haldi í dag gegn 50 þúsund dala tryggingu.

Málið þykir hið furðulegasta og þar á meðal vegna þess að vopnin fundust í hverfi sem heitir Bel Air og er skammt frá Beverly Hills þar sem vel settir íbúar Los Angeles búa og þar á meðal fjöldinn allur af sjónvarps- og kvikmyndastjörnum. Chris Ramirez, talsmaður lögreglunnar, segir einstaklega undarlegt að öll þessi vopn hafi fundist í glæsihýsi í umræddu hverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×