Erlent

Tveir látnir og nokkrir særðir eftir skotárás í háskóla Norður-Karólínu

Birgir Olgeirsson skrifar
Nemendur voru slegnir vegna þessarar árásar.
Nemendur voru slegnir vegna þessarar árásar. Vísir/AP
Tveir létust og nokkrir særðust í skotárás á svæði háskóla Norður Karólínu í Charlotte í Bandaríkjunum í dag. Skotárásin átti sér stað rétt fyrir klukkan 18 að staðartíma nærri Kennedy Hall-byggingunni en einn hefur verið færður í gæsluvarðhald vegna málsins.

Engar fregnir hafa verið færðar af líðan þeirra sem særðust þegar þetta er ritað. Lögreglan hefur ekki nafngreint þann sem er grunaður um skotárásina.

„Hlaupið, felið ykkur, berjist. Tryggið ykkar öryggi tafarlaust,“ var ritað á Twitter-reikning skólans skömmu fyrir klukkan sex.

Myndbönd náðust á vettvangi þar sem nemendur sáust yfirgefa byggingar háskólans með hendur á lofti á meðan lögreglumenn hlupu fram hjá þeim að vettvangi skotárásarinnar.

Talskona lögreglunnar staðfesti við fjölmiðla að árásarmaður hefði verið á svæðinu en neitaði að veita frekari upplýsingar.

Rúmlega 26 þúsund stunda nám við skólann sem er með um þrjú þúsund manns í vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×