Viðskipti innlent

Verðhækkanir boðaðar vegna kjarasamninga

Baldur Guðmundsson skrifar
Í pósti ÍSAM segir líka að allar innfluttar vörur muni hækka um 1,9%, verði samningarnir samþykktir.
Í pósti ÍSAM segir líka að allar innfluttar vörur muni hækka um 1,9%, verði samningarnir samþykktir. VÍSIR/HANNA
ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boðar 3,9% hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna verði kjarasamningar samþykktir. Þetta kemur fram í tölvupósti Hermanns Stefánssonar, forstjóra ÍSAM, til viðskiptavina.

Í póstinum segir líka að allar innfluttar vörur muni hækka um 1,9%, verði samningarnir samþykktir.

Samtök atvinnulífsins undirrituðu kjarasamninga við félög verslunarmanna og aðildarfélög Starfsgreinasambandsins í byrjun apríl. Þessa dagana eru meðlimir þessara verkalýðsfélaga að kjósa um samninginn, en í stuttu máli gengur samningurinn út á að hækka laun þeirra lægst launuðu mest. Hjá VR er atkvæðagreiðslu lokið en niðurstöður verða ekki birtar fyrr en 23. apríl, þegar atkvæðagreiðslu hjá hinum félögunum er einnig lokið.

Fréttablaðið.is greindi frá því í gær að Myllan, sem er í eigu ÍSAM, muni hækka verð um 2,7% verði nýir kjarasamningar samþykktir.

Nú er ljóst, samkvæmt tölvupósti ÍSAM til viðskiptavina, að hækkanirnar eru enn víðtækari. Ora, Frón og Kexsmiðjan munu hækka verð um 3,9%, verði samningarnir samþykktir auk þess sem innfluttar vörur verða hækkaðar um 1,9%.

„Þar sem ekki er búið að samþykkja kjarasamningana er hækkunin með fyrirvara um að þeir verði samþykktir,“ segir Hermann í póstinum. „Með von um skilning og áframhaldandi góða samvinnu.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×