Erlent

Eiginkona Ku Klux Klan-leiðtoga játaði loks á sig morðið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Malissa Ancona og sonur hennar, Paul Jinkerson jr, voru bæði ákærð fyrir morðið á sínum tíma.
Malissa Ancona og sonur hennar, Paul Jinkerson jr, voru bæði ákærð fyrir morðið á sínum tíma. Mynd/lögregla í Bandaríkjunum
Malissa Ancona, eiginkona Ku Klux Klan-leiðtogans Franks Ancona, játaði að hafa skotið hann til bana fyrir tveimur árum. Malissa var dæmd í lífstíðarfangelsi í Missouri-ríki í Bandaríkjunum í gær en hún hélt því áður fram að sonur hennar hefði framið morðið.

Sjá einnig: KKK-leiðtogi fannst látinn



Fjölsylda á veiðum fann lík Franks á árbakka í Missouri í febrúar árið 2017. Hann var leiðtogi (e. imperial wizard) í samtökunum Traditionalist Knights of the Ku Klux Klan, sem halda því fram að „hvíti kynstofninn“ hafi yfirburði yfir aðra.

Malissa og sonur hennar, Paul Jinkerson Jr., voru í kjölfarið ákærð fyrir morðið. Var þeim gefið að sök að hafa skotið Frank þar sem hann lá sofandi í rúmi sínu á heimili sínu í Leadwood, um 110 kílómetrum suður af St. Louis.

Malissa hélt því fram fyrir dómi að sonur hennar hefði framið morðið en dró þá frásögn sína til baka í gær. Enn á eftir að rétta í máli Jinkersons.

„Ég skaut báðum skotunum sem urðu eiginmanni mínum að bana,“ sagði Malissa við dómara í gær. Hún játaði jafnframt að hafa þvegið veggi í herberginu þar sem hún skaut Frank á sínum tíma, hent rúmfötum í ruslið og að lokum varpað líki hans í ána.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×