Erlent

Sjö ára stúlka stungin til bana í skóla Zagreb

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar fyrir utan skólann í Zagreb þar sem árásin átti sér stað í morgun.
Lögregluþjónar fyrir utan skólann í Zagreb þar sem árásin átti sér stað í morgun. AP/Damir Krajac

Sjö ára stúlka lét lífið og fimm aðrir nemendur og kennari særðust þegar ungur maður vopnaður hnífi réðst á þau í skóla í Zagreb, höfuðborg Króatíu, í morgun. Árásarmaðurinn hefur verið handtekinn en hann er sagður hafa gengið inn í skólann og byrjað að stinga börn inn í fyrstu skólastofunni sem hann sá.

Af þeim sem særðust er enginn sagður í lífshættu. Árásir sem þessar eru mjög sjaldgæfar í Króatíu.

AP fréttaveitan segir árásarmanninn hafa gengið inn í skólann um klukkan 9:50 að staðartíma, eða 8:50 að íslenskum tíma, og hefur honum verið lýst sem ungum fyrrverandi nemanda í skólanum. Hann ku vera nítján ára gamall.

Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir. Andrej Plenkovic, forsætisráðherra Króatíu, hefur sagt að lögreglan sé að reyna að komast til botns í því hvað gerðist og hvernig.

Reuters hefur eftir Davor Bozinovic, innanríkisráðherra, að árásarmaðurinn hafi átt við geðræn vandamál að stríða og hafi reynt að svipta sig lífi í fyrra.

Eftir árásina hljóp hann á brott og logaði sig inni á nærliggjandi heilsugæslustöð. Þar reyndi hann að bana sér með hnífi sínum en var stöðvaður af lögregluþjónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×