Erlent

Eiginkona og stjúpsonur KKK-leiðtogans ákærð fyrir morðið

atli ísleifsson skrifar
Malissa Ancona og Paul Jinkerson jr.
Malissa Ancona og Paul Jinkerson jr. lögregla í Bandaríkjunum
Eiginkona og stjúpsonur KKK-leiðtogans Frank Ancona, sem fannst látinn um helgina, hafa verið ákærð fyrir morðið.

Lík Ancona fannst á laugardag á árbakka í Missouri af fjölskyldu sem var á veiðum. Ancona var leiðtogi (e. imperial wizard) í samtökunum Traditionalist Knights of the Ku Klux Klan, sem heldur fram að hvíta kynstofninn hafi yfirburði yfir aðra.

Eiginkonu hans Malissa Ancona, sem lýsti eftir eiginmanni sínum á Facebook þegar hans var saknað, og stjúpsonur Ancona, Paul Jinkerson Jr, var birt ákæra í gær. Í frétt BBC segir að þau séu sökuð um að hafa myrt Ancona, yfirhylmingu og að hafa skilið lík eftir á víðavangi.

Lögregla sakar mæðginin um að hafa skotið Ancona þar sem hann lá sofandi í rúmi sínu á heimili sínu í Leadwood, um 110 kílómetrum suður af St. Louis í Missouri-ríki, síðastliðinn fimmtudag.

Talið er að mæðginin hafi svo ekið líkinu um 30 kílómetra leið og komið því fyrir í á nærri bænum Belgrade. Brunaleifar hafa fundist nærri bíl Ancona sem fannst um 50 kílómetrum frá þeim stað þar sem líkið fannst.

Vinnuveitandi Ancona lýsti fyrst eftir honum, eftir að hann skilaði sér ekki til vinnu. Áður en líkið fannst greindi Malissa lögreglu frá því að eiginmaðurinn væri við vinnu utan ríkisins og að hún hugðist sækja um skilnað.

Samtökin KKK eru þekkt fyrir hatur sitt á þeldökkum, en einnig fyrir gyðinga- og hommahatur sem og hatur á ýmsum öðrum minnihlutahópum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×