Viðskipti innlent

Þjóðþrifamál að stofna lággjaldaflugfélag

Ari Brynjólfsson skrifar
Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta Hotels, vinnur nú að því að koma nýju lággjaldaflugfélagi á laggirnar.
Hreiðar Hermannsson, hótelstjóri Stracta Hotels, vinnur nú að því að koma nýju lággjaldaflugfélagi á laggirnar. Fréttablaðið/Jón Sigurður Eyjólfsson
„Við erum á fullu að sjá hvort það sé grundvöllur fyrir því að setja á laggirnar lággjaldaflugfélag,“ segir Hreiðar Hermannsson, hót­el­stjóri Stracta Hotels. „Það er mikil vinna að finna út úr öllum hlutum, hvort það sé hægt eða ekki, en þetta lítur tiltölulega vel út.“

Með honum er hópur af fyrrverandi starfsfólki WOW air, en þó ekki Skúli Mogensen. Markmiðið sé ekki að endurreisa WOW air heldur sé hann að nota þá krafta og þekkingu sem sé til staðar eftir fall WOW. „Þetta er allt fólk með mikla reynslu. Við erum að skanna markaðinn og fara yfir rauntölur.“

Búið er að útbúa leiðaáætlun fyrir tvær flugvélar sem myndu fljúga til Lundúna og Kaupmannahafnar á daginn en Tenerife og Alicante á nóttunni. Síðan sé möguleiki á að bæta við flugvélum og þá hugsanlega fljúga til Bandaríkjanna. Öll þjónusta verði svo með einfaldasta móti með sem minnstum aukahlutum. Ekki er búið að finna nafn á flugfélagið.

Fjármögnunin liggur ekki fyrir. „Ég er ekki með neina hluthafa núna,“ segir Hreiðar. Þegar allt sé klárt muni hann svo leita til fagfjárfesta og til aðila sem hafa hagsmuni af því að starfrækja lággjaldaflugfélag. „Ferðamennskan er ein stærsta atvinnugreinin okkar, verðin mega ekki vera of há því þá hættir fólk að koma hingað. Þetta er þjóðþrifamál, það fór illa í mig hvernig staðið var að falli WOW air af hálfu stjórnvalda og ég vil með einhverjum hætti koma þessu af stað aftur.“

Aðspurður hvort það sé möguleiki að fljúga strax í sumar segir Hreiðar að til þess þurfi allt að ganga upp. „Það getur verið. Sjaldnast gengur allt upp.“




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×