Erlent

Konan sem lést sögð hafa kastað sér fyrir kúlnahríðina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Getty/David McNew
Konan sem lést í skotárásinni í bænahúsi gyðinga í Kaliforníu í Bandaríkjunum í gær er sögð hafa kastað sér fyrir kúlnahríð árásarmannsins í von um að bjarga rabbína bænahússins. Þrír særðust í skotárásinni.

Hinn sextuga Lori Gilbert Kaye var sú eina sem lést í árásinni en Naftali Bennet, ráðherra í ísraelsku ríkisstjórninni segir að hún hafi dáið hetjudauðdaga sem hafi „kastað sér fyrir kúlnahríðina“. Rabbíninn særðist í skotárásinni.

Árásarmaðurinn notaði hríðskotariffil til að skjóta á gesti Chabad-bænahússins í bænum Poway í Kaliforníu, skammt frá borginni San Diego, í gærmorgun.

Bæjarstjórinn í bænum segir að gestir bænahússins hafi ráðist til atlögu gegn árásarmanninum og líklega afstýrt því að fleiri hafi látið lífið.

Vísbendingar eru sagðar um að riffill árásarmannsins hafi staðið á sér og að það hafi að auki mögulega komið í veg fyrir enn meira blóðbað. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi en hafði síðar samband við lögreglu og gaf sig fram. Hann hefur ekki komist í kast við lögin áður.

Lögregla hefur sagt að árásarmaðurinn sé aðeins nítján ára gamall en svo virðist sem að han hafi birt einhvers konar stefnuyfirlýsingu á netinu, þar á meðal spjallborðinu 8chan. Þar hafi hann sagst vera innblásinn af hryðjuverkunum í Christchurch á Nýja-Sjálandi í síðasta mánuði og fjöldamorði vopnaðs manns sem skaut ellefu manns til bana og særði sex aðra í bænahúsi gyðinga í Pittsburgh í fyrra.


Tengdar fréttir

Einn látinn eftir skotárás í Kaliforníu

Karlmaður er í haldi lögreglu eftir að tilkynningar bárust um skothvelli skammt frá sýnagógu, bænahúsi gyðinga, í borginni Poway, skammt frá San Diego í Kaliforníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×