Viðskipti innlent

Fékk sex milljarða kröfu vegna bíla­láns

Atli Ísleifsson skrifar
Krafa upp á 6,1 milljarð barst Hákoni Erni í pósti.
Krafa upp á 6,1 milljarð barst Hákoni Erni í pósti.
Hákoni Erni Bergmann brá nokkuð í brún þegar honum barst rúmlega sex milljarða krafa frá Arion banka fyrr í vikunni.

Hákon segist hafa hringt í bankann til að spyrjast fyrir um málið. „Það kom þá í ljós að þetta var afgangur af bílaláni vegna Toyota Aygo bíla sem ég keypti í tengslum við reksturinn á Hvíta riddaranum,“ segir Hákon Örn.

Hann segir að upphæðin hafi þó á engan hátt passað. „Starfsmaður bankans var þó ekkert að kveikja til að byrja með og bauð mér upp á dreifingu á endurgreiðslu á þessum sex milljörðum. Þetta var frekar fyndið,“ segir Hákon Örn og bætir við að raunveruleg skuld hljóði upp á rúmlega 200 þúsund krónur eða svo. Málið sé nú til skoðunar hjá bankanum.

Hákon Örn sagði frá málinu á Facebook-síðu sinni. „Ég veit ekki hvað kom fyrir meistarann sem að orti „síðasti naglinn í kistuna“.... en ég leyfi mér að áætla það að það var hugsanlega eitthvað í líkingu við upplifunina mína í gær þegar að ég fór yfir póstinn minn,“ segir Hákon Örn á Facebook. „Ég var að hugsa hvort að einhver góðkunningi minn geti mögulega styrkt mig um amk. vextina.“

Búið er að má út ákveðnar upplýsingar af seðlinum.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×