Viðskipti innlent

Erlendir sjóðir seldu fyrir nærri milljarð í Símanum

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Erlendir sjóðir minnka við sig í Símanum.
Erlendir sjóðir minnka við sig í Símanum. Fréttablaðið/Vilhelm
Erlendir fjárfestingarsjóðir í hluthafahópi Símans hafa selt samanlagt um 2,4 prósenta hlut, jafnvirði um 900 milljóna króna miðað við núverandi hlutabréfaverð, í fjarskiptafyrirtækinu frá síðustu mánaðamótum. Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir alla hluthafa Símans sem Markaðurinn hefur séð.

Um er að ræða sjóði í stýringu þriggja fyrirtækja, bandarísku sjóðastýringarfyrirtækjanna Eaton Vance Management og Wellington Management og breska vogunarsjóðsins Lansdowne Partners.

Þannig hafa tveir sjóðir á vegum Eaton Vance, sem hefur undanfarin ár verið umsvifamesti erlendi fjárfestirinn hér á landi, minnkað hlut sinn í Símanum um samanlagt 0,6 prósent af hlutafé fjarskiptafyrirtækisins á undanförnum tveimur vikum. Fara sjóðirnir Global Macro Absolute Return Advantage og Global Macro Portfolio nú með 8,4 prósenta hlut í félaginu.

Þá hefur sjóður í stýringu Wellington Management selt á sama tíma um 0,7 prósenta hlut og sjóður Lansdowne Partners minnkað hlut sinn um liðlega 1,1 prósent. Fer fyrrnefndi sjóðurinn nú með 2 prósenta hlut í Símanum og sá síðarnefndi tæpan 1,4 prósenta hlut.

Á sama tíma og erlendu fjárfestarnir hafa minnkað við sig í fjarskiptafyrirtækinu hefur eignarhlutur, sem Kvika banki er skráður fyrir, aukist úr 1,6 prósentum í 4,6 prósent.

Gengi hlutabréfa í Símanum hefur hækkað um 5,9 prósent það sem af er ári eftir að hafa lækkað um 9,3 prósent á síðasta ári. Er núverandi markaðsvirði félagsins um 36 milljarðar króna.

Lífeyrissjóðir eru áberandi í hópi stærstu hluthafa Símans en Lífeyrissjóður verslunarmanna er sem dæmi stærsti hluthafi félagsins með um 13,5 prósenta hlut og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins sá næst stærsti með um 11,3 prósenta hlut. Þá heldur Gildi jafnframt á um 9,3 prósenta hlut í félaginu. – hae, kij






Fleiri fréttir

Sjá meira


×