Erlent

Blaðafulltrúi Hvíta hússins laug um Comey

Kjartan Kjartansson skrifar
Sanders hefur verið ötull málsvari Trump forseta.
Sanders hefur verið ötull málsvari Trump forseta. Vísir/EPA
Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, viðurkenndi fyrir saksóknurum Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, að hún hefði farið með staðlausa stafi um fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI á blaðamannafundi fyrir tveimur árum.

Í skýrslu Mueller sem birt var opinberlega í dag er meðal annars fjallað um þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti rak James Comey, þáverandi forstjóra FBI, í maí árið 2017. Stofnunin hafði þá stýrt rannsókn á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og mögulegu samráði framboðs Trump við þá. Brottreksturinn varð til þess að Mueller var skipaður sérstakur rannsakandi yfir rannsókninni.

Mueller komst að þeirri niðurstöðu að Trump hafi líklegast rekið Comey vegna þess að forstjórinn var ekki tilbúinn að lýsa því yfir opinberlega að forsetinn væri ekki persónulega til rannsóknar. Forsetinn og bandamenn hans hafi engu að síður gefið fjölda ólíkra ástæðna fyrir brottrekstri Comey.

Eftir að Comey var rekinn hélt Sanders því fram á blaðmannafundi í Hvíta húsinu að „ótalmargir fulltrúar FBI“ hefðu sagt Hvíta húsinu að þeir hefðu misst traust á forstjóranum. Sagðist hún jafnframt hafa persónulega rætt við marga sem væru þeirrar skoðunar.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá ein ummæla Sanders um Comey og FBI.

Í skýrslutökum hjá saksóknurum Mueller sagði Sanders að hún hefði mismælt sig á blaðmannafundinum. Þegar hún hafi sagt í öðru viðtali að almennir fulltrúar FBI hefðu misst traust á Comey hafi það verið í „hita leiksins“ og að það hefði „ekki byggst á neinu“.

Bandaríska blaðið Politico segir að Sanders hafi ekki svarað fyrirspurn þess vegna málsins áður en frétt þess birtist.

Mueller rakti ýmis atvik sem hægt væri að túlka sem tilraunir Trump forseta til að hindra framgang réttvísinnar í skýrslu sinni. Hann tók ekki afstöðu til þess hvort að ákæra ætti forsetann vegna þess en tók sérstaklega fram að hann gæti ekki hreinsað hann af þeirri sök.

Vísaði Mueller meðal annars til lögfræðilegra álitaefna um hvort hægt sé að ákæra sitjandi forseta og um valdheimildir forsetans sem honum eru veittar í stjórnarskrá. William Barr, dómsmálaráðherra, tók ákvörðun um að ekki væri ástæða til að ákæra Trump fyrir að hindra framgang rannsóknarinnar.


Tengdar fréttir

Skýrslan lýsir tilraunum Trump til að skaða rannsóknina

Þrátt fyrir að ekki sé mælt með ákæru í skýrslu Roberts Mueller lýsir hann tilraunum Trump forseta til að leggja stein í götu rannsóknarinnar, þar á meðal með því að vilja reka Mueller sjálfan.

Barr sagður hafa farið mjúkum höndum um Trump

Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, William Barr, kynnti í dag skýrslu Robert Mueller, sem sneri að mögulegum afskiptum Rússa af forsetakosningum 2016. Fjölmiðlar ytra hafa gagnrýnt Barr fyrir framgöngu sína á blaðamannafundinum og sagt dómsmálaráðherrann hafa farið mjúkum höndum um forsetann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×