Erlent

Gamanleikari og forseti berjast um æðsta embætti Úkraínu

Gunnar Reynir Valþórsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Volodymyr Zelenskiy.
Volodymyr Zelenskiy. AP/Emilio Morenatti
Gamanleikari með enga pólitíska reynslu leiðir í forsetakosningunum í Úkraínu en fyrri umferð þeirra fór fram um helgina. Volodymyr Zelenskiy fékk rúm þrjátíu prósent atkvæða og núverandi forseti, sem sækist eftir endurkjöri, Petro Poroshenko, náði aðeins sextán prósentum.



Seinni umferðin verður háð af þeim tveimur en Yulia Tympshenko, fyrrverandi forsætisráðherra, lenti í þriðja sæti.

Þótt Zelenskiy hafi litla pólitíska reynslu hefur hann þó reynslu af forsetaembættinu því hann hefur einmitt leikið forseta Úkraínu í vonsælli gamanþáttaröð þar í landi síðustu ár. Þar er söguþráðurinn á þá leið að venjulegur borgari sigrar forsetakosningar með því að heita því að berjast gegn spillingu í landinu. Því má segja að lífið hermi eftir listinni því barátta gegn spillingu hefur einmitt verið helsta kosningaloforð Zelenskiys.

Þá hefur hann heitið því að reyna að bæta samskiptin við Rússa og fyrir vikið hefur Poroshenko forseti kallað hann strengjabrúðu Pútíns Rússlandsforseta.

Zelenskiy sagði blaðamanni BBC að hann væri ánægður en baráttan væri ekki búin.



Innanríkisráðuneyti Úkraínu segir að fjölmargar tilkynningar um kosningasvik hafi borist. Alþjóðlegir eftirlitsaðilar segja þó að kosningarnar virðist að mestu hafa farið vel fram.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×