Erlent

Rapparinn Nipsey Hussle skotinn til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Hussle hét í rauninni Ermia Asghedom.
Hussle hét í rauninni Ermia Asghedom. AP/Marcio Jose Sanchez
Lögreglan í Los Angeles segir að rapparinn Nipsey Hussle, sem tilnefndur var til Grammy verðlauna á árinu, hafi verið skotinn til bana í suðurhluta borgarinnar. Hann var 33 ára gamall og mun hafa verið skotinn ásamt tveimur öðrum fyrir utan fataverslun sem hann átti. Hann einn lét lífið og hinir mennirnir tveir eru sagðir í stöðugu ástandi.

Hussle hét í rauninni Ermia Asghedom. AP fréttaveitan segir stóran hóp aðdáenda og íbúa hafa safnast saman við vettvang skotárásarinnar á meðan lögregluþjónar leituðu vitna og vísbendinga.



LA Times hefur heimildir fyrir því innan lögreglunnar að Hussle og hinir mennirnir tveir hafi verið skotnir af ungum manni sem hafi stokkið upp í bíl sem beið hans. Talið er að árásarmaðurinn sé meðlimur glæpagengis. Hann hefur ekki fundist enn.



Hussle átti nokkur fyrirtæki í hverfinu sem hann var skotinn í, sem er sama hverfi og hann ólst upp í. Hann var þekktur fyrir að veita fólki sem átti erfitt uppdráttar vinnu. Hann gaf öllum börnum grunnskóla í hverfinu eitt sinn skó og fjármagnaði endurbætur á leiktækjum og körfuboltavelli skólans.

Þá átti hann það til að greiða fyrir jarðarfarir íbúa sem létust vegna átaka glæpagengja.

Hussle hefur viðurkennt að hafa verið meðlimur Rollin’ 60s gengisins sem táningur. Í gömlu viðtali við LA Times í fyrra lýsti hann þeim tíma sem stríði. Það hafi verið eins og að búa við stöðugt stríðsástand.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×