Erlent

Allar ákærur felldar niður vegna blóðbaðsins í Waco

Samúel Karl Ólason skrifar
Alls veru 177 handteknir en enginn hefur verið sakfelldur fyrir glæp.
Alls veru 177 handteknir en enginn hefur verið sakfelldur fyrir glæp. Vísir/Getty
Allar kærur vegna skotbardaga við veitingastaðinn Twin Peaks í Waco í Texas árið 2015 hafa verið felldar niður. Níu manns létu lífið í átökunum sem urðu á milli tveggja mótorhjólagengja og tuttugu særðust alvarlega. Alls veru 177 handteknir en enginn hefur verið sakfelldur fyrir glæp.

Barry Johnson, nýkjörinn æðsti saksóknari umdæmisins sem skotbardaginn átti sér stað í, sagði í dag að forveri sinn hefði alfarið klúðrað rannsókn málsins og þá sérstaklega með því að láta handtaka svo til gott sem alla sem voru á veitingastaðnum.



Lögregluþjónar voru á vettvangi en þeir gátu ekki komið í veg fyrir átökin sem voru á milli meðlima gengjanna Cossacks og Bandidos, og systurgengja þeirra. Ekki liggur fyrir af hverju átökin hófust. Lögreglan segir genin hafa verið að deila um yfirráðasvæði og að meðlimir Bandidos hafi orðið reiðir yfir því að Cossacks væru farnir að nota fána Texas. Meðlimir gengjanna mótmæla því og einhverjir segja átökin hafa hafist á því að keyrt var yfir fót manns.

Eins og áður segir voru allir á vettvangi handteknir og voru þeir einnig ákærðir fyrir skipulagða glæpastarfsemi. Í ljós hefur þó komið að margir þeirra 177 sem voru handteknir voru ekki í gengjunum sem um ræðir og voru einungis að borða.

Minnst 130 hafa höfðað mál gegn lögreglunni vegna handtökunnar og vegna þess að þeir hafi verið stimplaðir sem glæpamenn.

Johnson sagði að réttast hefði verið að handtaka og ákæra menn í samræmi við gögn málsins. Washington Post bendir á að eftir fjögur ár hafi einungis einn maður verið færður fyrir dómara en málið gegn honum var fellt niður. Johnson sagði ótækt að halda málaferlunum áfram.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×