Erlent

Skýrsla Mueller gæti verið skaðlegri Trump en komið hefur fram

Kjartan Kjartansson skrifar
Barr hefur aðeins skrifað þinginu fjögurra blaðsíðna bréf þar sem hann lýsir því sem hann segir meginniðurstöður Mueller.
Barr hefur aðeins skrifað þinginu fjögurra blaðsíðna bréf þar sem hann lýsir því sem hann segir meginniðurstöður Mueller. Vísir/EPA
Nokkrir saksóknarar úr teymi Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, eru sagðir ósáttir við hvernig William Barr, dómsmálaráðherra, dró niðurstöður þeirra saman í síðasta mánuði. Þeir eru sagðir telja skýrsluna skaðlegri Trump forseta en Barr lét í veðri vaka.

Barr lýsti því sem hann sagði meginniðurstöður tæplega tveggja ára langrar rannsóknar Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og meintu samráði framboðs Trump við þá í bréfi til Bandaríkjaþings 24. mars.

Þar sagði Barr að Mueller hefði ekki sýnt fram á að framboðið hafi lagt á ráðin með Rússum en að hann gæti ekki hreinsað forsetann af sök um að hafa reynt að hindra framgang réttvísinnar þó að hann mælti ekki með ákæru vegna þess. Barr tilkynnti á sama tíma að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ákæra forsetann fyrir að hindra framgang rannsóknarinnar.

Nú segir New York Times að einhverjir rannsakenda Mueller hafi sagt kollegum sínum að Barr hafi ekki gefið greinargóða lýsingu á niðurstöðum þeirra. Þær séu forsetanum óþægilegri en Barr gaf í skyn. Barr vinnur nú að því að hreinsa upplýsingar sem hann telur að eigi að vera leynilegar úr skýrslunni áður en hún verður afhent þinginu síðar í þessum mánuði.

Verulegar vísbendingar um að forsetinn hafi skipt sér af rannsókninni

Blaðið segir heimildarmenn sína ekki vilja lýsa hvers vegna rannsakendurnir telja niðurstöður skýrslunnar skaðlegri forsetanum en komið hefur fram til þessa. Washington Post segir hins vegar að starfsmenn úr liði Mueller hafi kvartað við nána félaga sína um að sönnunargögnin sem þeir fundum um að Trump hafi reynt að hindra framgang rannsóknarinnar hafi verið veruleg og ískyggileg.

Einhverjum rannsakendanna þykir einnig skjóta skökku við að Barr hafi ekki birt samantekt á efni skýrslunnar sem þeir undirbjuggu sérstaklega. Samantektir voru gerðar fyrir mismunandi kafla skýrslunnar með það fyrir augum að þær væru gerðar opinberar. Þeir hafi búist við því að þær samantektir yrðu birtar, ekki aðeins samantekt dómsmálaráðherranns á efni skýrslunnar.

Demókratar í dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykktu í gær að veita formanni nefndarinnar heimild til að gefa út stefnur til að knýja Barr til að afhenda skýrslu Mueller óritskoðaða og með öllum undirliggjandi gögnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×