Viðskipti innlent

Víða orðið hag­stæðara að leigja þriggja her­bergja íbúð heldur en að kaupa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hlutfallslega færri nýbyggingar voru seldar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar síðastliðnum samanborið við janúar.
Hlutfallslega færri nýbyggingar voru seldar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar síðastliðnum samanborið við janúar. vísir/vilhelm
Víða um land er orðið hagstæðara að leigja þriggja herbergja íbúð heldur en að kaupa þar sem húsnæðisverð hefur hækkað hraðar en leiguverð. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs um fasteignamarkaðinn.

Þá voru hlutfallslega færri nýbyggingar seldar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar síðastliðnum samanborið við janúar.

Í skýrslu Íbúðalánasjóðs segir að 11 prósent viðskipta á höfuðborgarsvæðinu í febrúar hafi verið vegna kaupa á nýbyggingum samanborið við 16 prósent viðskipta mánuðinn á undan. Þar sem nýbyggingar eru alla jafna dýrari en eldri íbúðir gæti hlutfallslega minni sala þeirra í febrúar skýrt lækkun á vísitölu íbúðaverðs á milli mánaða.

Sé hins vegar litið til svæða utan höfuðborgarsvæðisins sést að sala nýbygginga eykst, eða eins og segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs:

„Það sem af er ári hafa 120 nýbyggingar verið seldar á höfuðborgarsvæðinu en til samanburðar seldust 276 nýjar íbúðir á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2018.

Á ákveðnum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins er þróunin önnur. Í febrúar voru 24% íbúðaviðskipta utan höfuðborgarsvæðisins vegna nýbygginga og það sem af er ári hafa 119 nýbyggingar selst þar, í samanburði við 83 fyrir ári síðan. Hlutfallsleg aukning varð mest í Reykjanesbæ og Hveragerði.“

Þá er víða orðið hagstæðara að leigja þriggja herbergja íbúð heldur en að kaupa þar sem húsnæðisverð hefur hækkað hraðar en leiguverð:

„Einfaldur samanburður á þróun kaup- og leiguverðs þriggja herbergja íbúða víðsvegar um land sýnir að almennt séð hefur orðið ívið hagstæðara að leigja en kaupa síðustu ár þar sem húsnæðisverð hefur hækkað hraðar en leiguverð.

Á síðasta ári gaf samspil kaup- og leiguverðs til kynna að það tæki 16 ár fyrir leigugreiðslur að greiða upp kaupverð þriggja herbergja íbúðar á Akranesi og Kópavogi. Styttri tíma tæki það í Reykjanesbæ og austurhluta Reykjavíkur eða um 13 ár.“

Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gefa síðan góða mynd af ólíkri stöðu húsnæðismála:

„Flest sveitarfélög landsins eru annað hvort búin að birta eða komin vel á veg með gerð húsnæðisáætlunar. Áætlanirnar gefa greinargóða mynd af stöðu húsnæðismála í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Af þeim má m.a. sjá að á höfuðborgarsvæðinu og í stærstu sveitarfélögum landsins er þörf fyrir hentugt húsnæði fyrir tekju- og eignalága og þörf á smærri íbúðum fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig. Í öðrum sveitarfélögum eru áskoranirnar af ýmsum toga og felast meðal annars í misvægi milli byggingarkostnaðar á nýju íbúðarhúsnæði og markaðsverði þess.“

Skýrslu Íbúðalánasjóðs má nálgast í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×