Erlent

Guðni heillaði fundarmenn með rússneskukunnáttu sinni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Forseti Íslands sótti ráðstefnuna International Arctic Forum sem haldin er í Sankti Pétursborg í Rússlandi. Hann tók þátt í pallborði um samstarf á norðurslóðum ásamt forsætisráðherrum Noregs og Svíþjóðar auk forseta Finnlands og forseta Rússlands.

Í ræðu sinni kom Guðni inn á ríka áherslu íslenskra stjórnvalda við að tryggja umhverfisvernd og sjálfbærni á Norðurheimskautinu. Hann greindi frá áformum formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu en Ísland tekur við formennsku í ráðinu í næsta mánuði. Þá lagði hann sérstaka áherslu í ræðu sinni á vernd hafsins.

„Sem forseti Íslands hef ég mikinn áhuga á málefnum hafsins og hlutverki þess í leið okkar að friðsælli, velmegandi og sjálfbærri framtíð fyrir allt mannkyn.“

leiðtogarnir fimm í pallborði í dag.EPA/Anatoly Maltsev
Á fundinum var aukin umferð á norðurslóðum til umræðu og hættan á átökum. Guðni sagði að hann trúði því að vettvangur Norðurskautsráðsins væri góður staður til að leysa deilumál í sátt og vænti þess að þannig yrði það einnig í framtíðinni. Hann sagði að til þess þyrfti fólk að leggja sig fram við að skilja hvert annað. því er óhætt að segja að lokaorð hans hafi verið í anda þeirra skilaboða en þau flutti hann á rússnesku. 

„Það er þessvegna sem ég mun tala rússnesku í lokin,“ sagði hann. „Ég er ekki reipirennandi í rússnesku og ég afsaka það. Ég lagði stund á rússnesku fyrir löngu síðan og ég gleymdi því næstum því hvernig á að tala hana. Engu að síður man ég eftirfarandi og ég er viljugur til að segja það núna: Það er ekkert mikilvægara í heiminum en sönn vinátta,“ sagði Guðni og sjá mátti að ráðstefnugestum var skemmt yfir æfingu hans á rússnesku.

Hér fyrir neðan má hlusta á ræðu Guðna í heild sinni:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×