Innlent

Segir Ís­lendinga hafa full yfir­ráð í raf­orku­málum í orku­pakka III

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingsályktun og frumvarp um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins verða lögð fram á Alþingi í næstu viku. Utanríkisráðherra segir það sameiginlegan skilning Íslendinga og Evrópusambandsins að Íslendingar hafi áfram einir full yfirráð yfir raforkumálum landsins.

Íslendingar hafa innleitt orkupakka eitt og tvö sem fólu í sér markaðsvæðingu á framleiðslu og sölu á raforku. Þriðji orkupakkinn felur í sér ákvæði um neytendavernd og aðgang að flutnings- og dreifikerfum, gagnsæi á markaði, aðskilnað samkeppnisrekstrar í framleiðslu og sölu frá sérleyfisrekstri í flutningi og dreifingu.

Margir óttuðust að með innleiðingunni fælist að gefið væri eftir vald í raforkumálum til alþjóðlegrar stofnunar Evrópusambandsins og verð á raforku myndi hækka með tengingu við evrópska raforkumarkaðinn. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir ekkert breytast varðandi yfirráð Íslendinga yfir raforkumálum sínum.

„Það hafa margir haft áhyggjur og við höfum komið til móts við þær. Þetta er orkupakki á íslenskum forsendum. Menn hafa haft áhyggjur af tvennu. Annars vegar að þetta standist ekki stjórnarskrá og hins vegar að við yrðum tengd orkumarkaði Evrópu hvort sem okkur líkaði betur eða verr. Það mun ekki gerast,” segir Guðlaugur Þór.

Utanríkisráðherra leggur þingsályktunartillögu um innleiðingu pakkans fyrir Alþingi í næstu viku og iðnaðarráðherra leggur fram frumvörp um breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun sem ætlað er eftirlitshlutverk með málaflokknum. Þær reglur sem eiga við um flutning raforku yfir landamæri eru innleiddar með þeim lagalega fyrirvara að þær komi ekki til framkvæmda nema að Alþingi heimili lagningu raforkustrengs.

„Það eru allir fræðimenn sem að málinu hafa komið sammála um að þetta standist stjórnarskrá. Sömuleiðis er það tryggt að hér verður ekki lagður sæstrengur nema Alþingi ákveði það sérstaklega. Og þá þarf að byrja með málið í rauninni upp á nýtt,” segir Guðlaugur Þór.

Þennan skilning hefur utanríkisráðherra fengið staðfestan á símafundi með orku- og loftslagsmálastjóra Evrópusambandsins. Til að ítreka afstöðu Íslands enn frekar ákváðu þingflokkar stjórnarflokkanna á sameiginlegum fundi á miðvikudag að umsókn um sæstrengsverkefnið IceLink til Skotlands yrði dregin til baka


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×