Viðskipti innlent

Kaupa meirihluta í HS Orku fyrir 37 milljarða króna

Birgir Olgeirsson skrifar
Jarðvarmavirkjunin að Svartsengi á Reykjanesi sem er í eigu HS Orku.
Jarðvarmavirkjunin að Svartsengi á Reykjanesi sem er í eigu HS Orku. Vísir/Vilhelm
Kanadíska orkufyrirtækið Innergex hefur selt tæplega 54 prósenta eignarhlut sinn í HS Orku til fjárfestingasjóðs í stýringu hjá Macquarie Infrastructure and Real Assets.

Greint er frá þessu á vef Innergex en þar segir að félagið hafi selt 53,9 prósenta hlut sinn, sem var að fullu í eigi dótturfyrirtækis kanadíska fyrirtækisins sem nefnist Magma Energy Sweden A.B., til fjárfestingasjóðsins.

Kaupverðið er 304 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 37 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Söluferli á þessum hlut hófst í október í fyrra  en Innergex eignaðist hlutinn í HS Orku í byrjun ársins 2018 þegar það gekk frá kaupum á öllu hlutafé kanadíska orkufélagsins Alterra.

Er HS Orka þriðji stærsti raforkuframleiðandi landsins og jafnframt eina orkufyrirtækið hér á landi sem er í eigu einkafjárfesta. Aðrir hluthafar HS Orku eru samlagshlutafélagið Jarðvarmi, sem er í eigu fjórtán íslenskra lífeyrissjóða, með 33,4 prósenta hlut og fagfjárfestasjóðurinn ORK með 12,7 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×