Erlent

Yale afturkallar inngöngu nemanda vegna mútugreiðslu

Sylvía Hall skrifar
Yale er mjög eftirsóttur skóli en aðeins 6,7% umsækjenda fá inngöngu.
Yale er mjög eftirsóttur skóli en aðeins 6,7% umsækjenda fá inngöngu. Vísir/Getty
Yale háskóli í Bandaríkjunum hefur afturkallað samþykki nemanda eftir að upp komst um mútugreiðslu fjölskyldu hans sem hljóðaði upp á rúmlega eina milljón Bandaríkjadala, tæplega 150 milljónir íslenskra króna. Háskólinn er talinn vera á meðal þeirra bestu í Bandaríkjunum.

Mútugreiðslan er sögð tengjast umfangsmikilli svikamyllu sem snerist um að koma börnum fólks inn í ákveðna háskóla gegn greiðslu. Fyrirtækið sem stóð að þessu útvegaði fólk til þess að taka inntökupróf í háskóla eða skráði börnin á íþróttastyrk þrátt fyrir að þau væru ekki íþróttamenn.

Sjá einnig: „Aðþrengd eiginkona“ á meðal ákærðra í háskólasvikamyllu

Nemandinn sem um ræðir hafði verið tekinn inn á þeim forsendum að hann hafi átt að spila með fótboltaliði skólans en fyrrum þjálfari liðsins, Rudy Meredith, er sagður hafa fengið tæplega 50 milljónir króna fyrir.

Meredith sagði upp störfum í nóvember á síðasta ári vegna tengsla sinna við svikamylluna. Hann er sagður hafa útvegað tveimur nemendum íþróttastyrki, einum hafi verið veitt innganga í skólann en hinum hafi verið hafnað. Hann hafi vitað að hvorugur spilaði fótbolta.

Á síðasta ári kom alríkislögreglan í Bandaríkjunum upp um aðra mútugreiðslu sem þjálfarinn fór fram á vegna málsins sem sneri að öðrum nemenda og hljóðaði sú greiðsla upp á tæplega 55 milljónir króna. Meredith mætir fyrir dómara seinna í vikunni vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×