Erlent

Höfðu aðeins 40 sekúndur til að afstýra stórslysi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vél sömu tegundarog á þessari mynd hvarf með 189 farþegar og áhöfn Lion Air innanborðs skömmu eftir flugtak frá Jakarta
Vél sömu tegundarog á þessari mynd hvarf með 189 farþegar og áhöfn Lion Air innanborðs skömmu eftir flugtak frá Jakarta AP
Komið hefur í ljós við endursköpun þeirra aðstæðna í flughermi sem flugmenn Lion Air þotunnar sem hrapaði í Indónesíu á síðasta ári stóðu frammi fyrir að þeir höfðu aðeins 40 sekúndur til þess að aftengja flugkerfið sem grunur leikur á að hafi spilað stóran þátt í flugslysinu.

189 létust þegar Boeing MAX 8 vél Lion Air hrapaði skömmu eftir flugtak frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu, á síðasta ári. Talið er að gallaður skynjari hafi orðið til þess að það kviknaði á MCAS-kerfi vélarinnar, sjálfvirku kerfi sem á að koma í veg fyrir ofris og má finna í MAX-vélum Boeing.

Í frétt New York Times segir að settar hafi verið upp prófanir í flughermi til þess að líkja eftir þeim aðstæðum sem sköpuðust þegar vél Lion Air hrapaði. Í einu prófinu var skynjarinn látinn bila sem varð til þess að MCAS-kerfið fór í gang.

Hefur Times eftir tveimur heimildarmönnum sem komu að prófununum að flugmennirnir í flugherminum hafi aðeins haft 40 sekúndur til þess að átta sig á vandanum, aftengja kerfið og koma í veg fyrir að vélin tæki dýfu sem ekki væri hægt að ná henni úr aftur.



Greint hefur verið frá því að flugmenn vélarinnar hafi barist við sjálfstýringu hennar og flett leiðbeiningabæklingum í von um að ná fullri stjórn á vélinni aftur, án árangurs.

Eftir að samskonar vél Ethiopian Airlines hrapaði fyrr í mánuðinum voru allar MAX-vélar Boeing kyrrsettar. Verið er að rannsaka hvort MCAS-búnaðurinn hafi átt hlut að máli í hrapi vélar Ethiopan Airlines.

Í frétt New York Times segir að þeir sem hafi framkvæmt prófanirnar í flugherminum hafi ekki áttað sig á því hversu öflugt kerfið er fyrr en á reyndi í prófununum, en sjá má útskýringu á því hvernig kerfið virkar hér að ofan.

Boeing vinnur nú hörðum höndum að því að koma frá sér uppfærslu á kerfinu sem veiti flugmönnum meiri stjórn yfir því. Er uppfærslan forsenda fyrir því að flugbanni MAX 8 vélanna verði aflétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×