Viðskipti innlent

Upp­sagnir hjá Gray Line: Hafa ekki lengur efni á að vera með starfs­menn á lager

Atli Ísleifsson skrifar
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri  Gray Line, segir reksturinn erfiðan.
Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri Gray Line, segir reksturinn erfiðan. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson
Þremur starfsmönnum ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line hefur verið sagt upp. Þetta staðfestir Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri fyrirtæksins, í samtali við Vísi.

Rekstrarumhverfi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja er nokkuð breytt eftir fréttir gærdagsins þar sem greint var frá gjaldþroti flugfélagsins WOW air. Þannig sögðu Kynnisferðir upp 59 manns í gær.

Þórir hjá Gray Line segir að uppsagnirnar nú tengist ekki falli WOW air sérstaklega. Í ljósi stöðunnar almennt og þar sem reksturinn sé erfiður skoði fyrirtækið hins vegar stöðugt bókunarstöðuna fram í tímann og grípi til aðgerða ef bókunarstaðan gefur tilefni til.

„Við höfum ekki efni á eins og áður að vera með starfsmenn á lager. Mér sýnist að við þurfum að fækka um þrjá starfsmenn úr þeim tvö hundruð manna hópi sem vinnur hjá félaginu,“ segir Þórir.


Tengdar fréttir

59 sagt upp hjá Kynnisferðum

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri, segir það hafa verið erfiða ákvörðun en rekstarumhverfi hafi breyst mikið að undanförnu.

Óttast fleiri uppsagnir

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir fyrirtæki hafa verið í aðhaldsfasa. Búist við miklu álagi hjá Vinnumálastofnun komandi misseri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×