Erlent

Vara Rússa við hernaðaríhlutun í Venesúela

Kjartan Kjartansson skrifar
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseti.
John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseti. Vísir/EPA
Þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta varaði Rússa og aðrar þjóðir sem styðja Nicolas Maduro, forseta Venesúela, við því að senda hermenn eða hergögn til Suður-Ameríkulandsins í dag. Bandaríkjastjórn líti á slíkt sem beina ógn við öryggi í heimshlutanum.

Rússnesk stjórnvöld eru talin hafa sent hátt í hundrað sérsveitarmenn og tölvuöryggissérfræðinga til að aðstoða ríkisstjórn Maduro sem hefur átt í vök að verjast undanfarin misseri. Bandaríkin og fleiri vestræn ríki hafa lýst yfir stuðningi við Juan Guaidó, forseta þingsins, sem telur sig réttmætan handhafa forsetaembættisins.

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, gaf út viðvörun í dag sem virtist sérstaklega beint að Rússum þegar hann hvatti ríki utan vesturhvelsins til þess að senda ekki herlið til Venesúela.

„Við lítum á svo ögrandi aðgerðir sem beina ógn við alþjóðlegan frið og öryggi heimshlutans. Við höldum áfram að verja og vernda hagsmuni Bandaríkjanna og bandamanna okkar á vesturhveli,“ sagði Bolton, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um fjórðungur Venesúelabúa þurfi á mannúðarástand að halda. Landið hefur verið plagað af vöruskorti og rafmagnsleysi undanfarin misseri í kjölfar margra ára af efnahagslegri óstjórn Maduro og Hugo Chávez, forvera hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×