Innlent

Framkvæmdastjóri ákærður fyrir niðurrif á Exeter-húsinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Húsið sem stóð við Tryggvagötu 12, og stundum hefur verið kallað Exeter-húsið, var byggt árið 1904.
Húsið sem stóð við Tryggvagötu 12, og stundum hefur verið kallað Exeter-húsið, var byggt árið 1904. Vísir/Anton Brink
Héraðssaksóknari hefur höfðað mál á hendur öðrum af tveimur eigendum verktakafyrirtækisins Mannverk fyrir brot gegn lögum um menningarminjar og lögum um mannvirki. Jónas Már Gunnarsson, eigandi og framkvæmdastjóri Mannverks, er ákærður fyrir að hafa látið rífa í heild sinni og til grunna svonefnd Exeter-hús sem stóð við Tryggvagötu 12 í Reykjavík.

Húsið naut lögbundinnar friðunar vegna aldurs en Jónas Már er sakaður um að hafa látið rífa það án leyfis Minjastofnunar Íslands og án þess að fyrir lægi byggingarleyfi sem heimilaði niðurrif hússins í heild. Jónas Már var umsjónarmaður við niðurrif mannvirkja á sameinaðri lóð númer 14 við Tryggvagötu sem húsið taldist hluti af. Mannverk var verktaki við fyrirhugaðar byggingaframkvæmdir.

Brotin teljast varða við lög um menningarminjar annars vegar og lög um mannvirki hins vegar.

Brotin á fyrri lögunum varða 2. málsgrein 29. greinar laganna þar sem segir að óheimilt sé að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Brotin varða sektum úr ríkissjóði.

Brotin á lögum um mannvirki snúa að 58. grein laganna þar sem segir að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Brotin varða fangelsi allt að tveimur árum.

Málið verður þingfest á fimmtudaginn í Héraðsdómi Reykjavíkur.


Tengdar fréttir

Hefja endurreisn Exeterhúss

„Þeir klára niðurrifið og halda svo áfram framkvæmdinni og reisa húsið í gömlum stíl í umsjón Minjastofnunar Íslands,“ segir Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×