Innlent

Segir hægt að draga úr skemmdum vegna myglu með ábyrgari byggingariðnaði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og fagstjóri hjá Eflu, verkfræðistofu
Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur og fagstjóri hjá Eflu, verkfræðistofu Vísir

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá Eflu og ráðgjafi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, segir að hægt sé að draga úr skemmdum af völdum myglu í húsnæði með ábyrgari byggingariðnaði og fyrirbyggjandi viðhaldi. Sylgja var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.



Sylgja segir að einnig sé hægt að auka fagþekkingu þegar komi að rakaöryggi húsa og byggingareðlisfræði. Þannig sé að miklu leyti hægt að draga úr mygluskemmdum.



Oftar en ekki þegar komið er í óefni vegna myglu sé lélegu viðhaldi um að kenna.



„Við nefnilega eigum við þetta vandamál að etja hérlendis, við erum ekki með neina samhæfða verkferla um hvernig skoðunaraðilar skoða byggingar með þessu tilliti og fagþekkingin sjálf er líka mjög mismunandi. Síðan má ekki gleyma að verkbeiðni getur verið mismunandi, aðgengi að húsnæði getur verið mismunandi og það eru mismunandi forsendur sem liggja að baki,“ segir Sylgja.



Hún segir skorta samhæfingu á því hvernig húsnæði er tekið út og skoðað fyrir myglu og hvenær skuli taka hlutina alvarlega. Sylgja segir þó einnig að mögulega geti orðið bragarbót þar á.



„Það er faghópur sem að er með aðilum frá verkfræðistofunum þar sem við erum að ræða um að samhæfa þessar aðferðir þannig að það er í vinnslu. Það held ég að sé öllum hagsmunaaðilum til bóta.“



Sylgja segir fyrstu einkenni sem fólk kunni að finna til vegna myglu í vistarverum eða öðru húsnæði oftast vera í öndunarfærum eða húð. Önnur einkenni geti verið verkur í meltingafærum eða höfði. Einkennin séu almenn og ekki bundin við myglu, en oft sé hægt að tengja þau við viðveru í ákveðnu húsnæði.



Þannig geti fólk oft skánað af einkennunum eða jafnvel losnað við þau þegar húsnæðið sem um ræðir er yfirgefið eða lagað þannig að myglan sé á bak og burt.  



Viðtal Reykjavíkur síðdegis við Sylgju má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×