Innlent

Skilur sátt við störf sín hjá dómsmálaráðuneytinu

Elín Margrét Böðvarsdóttir og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Sigríður Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, segist skilja sátt við sín störf hjá dómsmálaráðuneytinu.
Sigríður Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, segist skilja sátt við sín störf hjá dómsmálaráðuneytinu. Vísir/Egill

Sigríður Á. Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, segist skilja sátt við sín störf hjá dómsmálaráðuneytinu.

Fréttamaður okkar náði tali af Sigríði fyrir utan Stjórnarráð Íslands þegar hún hafi nýlokið sínum síðasta ríkisstjórnarfundi að minnsta kosti í bili. Sigríður segir að fundurinn hefði verið ánægjulegur í alla staði. Hún segist ekki vita hvort hún muni snúa aftur í embætti dómsmálaráðherra.

„Ég veit ekkert um það. Nú hef ég stigið til hliðar eða hætt hvernig sem menn vilja orða það - í bili - til að skapa ákveðinn vinnufrið og ég vonast til að menn fái hann og þar á meðal ég líka,“ segir Sigríður.

Aðspurð hvort hún muni mæta á þingflokksfund Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið boðað til vegna málsins og er á dagskrá klukkan 14:30 svarar Sigríður því til:

„Að sjálfsögðu. Ég er fyrsti þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður. Það væri undarlegt ef ég myndi ekki mæta.“

Sigríður segir að ekkert hafi verið rætt um hver muni taka við sem dómsmálaráðherra á ríkisstjórnarfundinum. Þetta hafi verið afar hefðbundinn ríkisstjórnarfundur en jafnframt hennar síðasti að minnsta kosti í bili.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur boðað þingflokk Sjálfstæðisflokksins til fundar í Alþingishúsinu klukkan 14:30 í dag til að ræða stöðuna sem komin er upp eftir að Sigríður sagði af sér sem dómsmálaráðherra í gær.


Tengdar fréttir

Síðasti ríkisstjórnarfundur Sigríðar

Ríkisstjórnarfundur hófst í Stjórnarráðshúsinu núna klukkan níu en um er að ræða síðasta ríkisstjórnarfund Sigríðar Á. Andersen, að minnsta kosti í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×