Viðskipti innlent

Gagnaveitan skilaði 192 milljóna hagnaði

Birgir Olgeirsson skrifar
Rekstrarkostnaður dróst saman og tekjur jukust.
Rekstrarkostnaður dróst saman og tekjur jukust. Gagnaveita Reykjavíkur
Starfsemi Gagnaveitu Reykjavíkur á árinu 2018 skilaði 192 milljóna króna hagnaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gagnaveitunni en þar segir að lykillinn að því sé að á sama tíma og tekjur uxu með vaxandi vinsældum Ljósleiðarans dróst rekstrarkostnaður saman.

Nú sér fyrir endann á því mikla fjárfestingarverkefni að hvert einasta heimili í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu verði tengt Ljósleiðaranum og eigi kost á Eitt gíg netsambandi. Um 70% heimila í landinu eiga nú kost á að nýta sér Ljósleiðarann.

„Þessi afkoma er í samræmi við okkar áætlanir. Tæplega 100 þúsund heimili á Íslandi hafa fengið kost á tengingu við hágæðasamband Ljósleiðarans síðustu ár. Með því að tengingu allra heimila í þéttbýli höfuðborgarsvæðisins er að ljúka og öll tengd heimili eiga kost á Eitt gíg sambandi dregur úr fjárfestingum. Viðskiptavinum sem velja Ljósleiðarann fjölgar stöðugt og tekjurnar vaxa þar með. Ísland er á meðal fremstu þjóða í hraða fjarskiptasambanda. Það er mikilvæg forsenda samkeppnishæfni landsins, atvinnulífs og íbúa,“ er haft eftir Erlingi Frey Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gagnaveitunnar.

Ljósleiðarinn er opið grunnnet fjarskipta sem fjarskiptafyrirtæki á samkeppnismarkaði nýta til að bjóða þjónustu sína. Fyrirtækin sem bjóða þjónustu um Ljósleiðarann í dag eru Nova, Vodafone, Hringdu og Hringiðan. Öllum sem tengd eru Ljósleiðaranum býðst tengihraðinn Eitt gíg, eða 1.000 megabit á sekúndu, hvort sem er við upphal eða niðurhal. Ljósleiðarinn er í eigu Gagnaveitu Reykjavíkur, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×